Yfirlýsing frá samninganefnd Eflingar til borgarstjórnarmeirihlutans
Samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur í ykkar umboði hafnað í þriðja sinn tillögum okkar um lausn á yfirstandandi kjaradeilu félagsmenna Eflingar við Reykjavíkurborg. Þetta kom fram í dag á
samningafundi með Ríkissáttasemjara.
Tilboðið sem við lögðum fram í gær er sanngjarnt og hófsamt. Við leggjum til að þið komið til móts við okkur með hóflegum álagsgreiðslum, skilgreindar á forsendum þess að meta ábyrgð, aðstæður og þarfir sem snerta okkar einstöku störf og vinnustaði sérstaklega. Við höfum því komið til móts við áhyggjur ykkar af því að kjarabætur í almennri mynd verði of fordæmisgefandi, og höfum auk þess slegið af kröfum okkar.
Í Meirihlutasáttmála sem þið undirrituðuð og senduð frá ykkur þann 12. júní 2018 segir: „Við ætlum að leiðrétta laun kvennastétta.“ Við metum það svo að barátta okkar síðastliðnar vikur og mánuði hafi skapað sátt í samfélaginu um þörfina á því að endurmeta illa launuð störf hjá borginni sem eru að meirihluta kvennastörf. Drífa Snædal, forseti ASÍ, benti í gærkvöldi í fréttum á að kjaradeila okkar við ykkur snýst um sögulegt vanmat og undirverðlagningu á störfunum sem við vinnum.
Það er stuðningur í samfélaginu við að þið efnið loforð ykkar í tengslum við endurnýjun kjarasamnings. Eina málsvörn ykkar gegn kröfum okkar hefur verið að vísa í kjarasamning á almennum vinnumarkaði, svokallaðan Lífskjarasamning. Það er ljóst að aðilar þess samnings úr röðum verkalýðshreyfingarinnar líta ekki svo á að hann leysi ykkur undan þeirri skyldu að semja við okkur á sjálfstæðum forsendum.
Stjórn og formaður VR, stærsta stéttarfélagsins sem undirritaði Lífskjarasamninginn, hafa opinberlega lýst yfir óyggjandi stuðningi við rétt okkar til sjálfstæðrar kjarasamningsgerðar. Sama hefur fjöldi annarra stéttarfélaga gert.
Í okkar hópi eru þeir sem fá lægstu útborguðu laun allra á íslenskum vinnumarkaði sökum þess að lágir taxtar eru þakið í launasetningu okkar og vegna þess að mörg okkar hafa ekki aðgang að
yfirvinnu eða vaktavinnu. Meirihluti okkar eru konur sem eru dæmdar til að lifa á barmi fátæktar, þrátt fyrir að vera í fullri vinnu og halda úti grunnþjónustu sem er svo mikilvæg að jafnvel örfárra daga verkfall setur allt úr skorðum.
Á leikskólunum einum sparið þið 1000 milljónir á ári með því að láta okkur ganga í störf faglærðra sem hafa flúið vinnustaði borgarinnar. Þá er ótalið það sem þið sparið á sama hátt á öðrum sviðum borgarinnar. Við öxlum viðbótarálagið og ábyrgðina launalaust, en þið notið peningana sem sparast til framúrkeyrslu og eftirlitslauss fjárausturs í gæluverkefni.
Þið hafið látið þá skömm viðgangast að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins mæti í viðtöl í fjölmiðlum í ykkar stað, jafnvel til að mæta formanni félagsins okkar. Þið látið ekki ná í ykkur á sama tíma og Samtök atvinnulífsins verja milljónum í að brjóta baráttu okkar á bak aftur með áróðursherferð. Sum ykkar segjast aðhyllast jafnaðarmennsku og félagshyggju, en staðreyndin er að þið hafið gefið auðstéttinni umboð til að heyja stríð fyrir ykkar hönd gegn okkur, láglaunafólki og kvennastéttum.
Við fordæmum hræsni ykkar, þögn og ábyrgðarleysi.
Kröfur okkar eru réttlátar. Baráttuvilji okkar er mikill. Verkfall er okkar réttur. Tækifæri ykkar til að komast frá þessari kjaradeilu án frekari vansæmdar eru að renna út.
Borgin er í okkar höndum.
Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg