Upplausn og æsingur kom upp í þætti Björns Þorlákssonar á Samstöðinni þegar vandamál vegna erlendra fjölskyldna í skólakerfinu á Íslandi bar á góma. Upp hófust rifrildi í þættinum og ásakanir um rasisma en fjölmiðlamennirnir Ólafur Arnarson, María Lilja Þrastardóttir og Valur Grettisson voru við borðið. ,,Það má ekki ræða þessi mál“ sagði Ólafur
Tilefni umræðunnar var frétt sem birtist í Morgunblaðinu um ógnarástand í Breiðholtsskóla þar sem nemendur veigra sér við að mæta í skólann út af hópi fimm drengja. Í blaðinu var sérstaklega tekið fram að af þessum fimm drengjum séu minnst tveir frá Mið-Austurlöndum og arabískumælandi. Tveir til viðbótar séu af erlendu bergi brotnir en að einn þeirra sé íslenskur.
Morgunblaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að illa hafi gengið að fá foreldra drengjanna frá Mið-Austurlöndum til að eiga samskipti við skólann, meðal annars sökum þess að karlmennirnir beri enga virðingu fyrir konum, mæður drengjanna megi ekki koma fram fyrir hönd fjölskyldnanna við skólann og þetta viðhorf hafi svo smitast til drengjanna sem virði konur að engu en flestir kennarar eru kvenkyns.
Fréttatíminn fékk staðfestingu frá kvenkyns kennara að þetta væri stórt vandamál við kennslu og að mæður mættu ekki tala við skólana.
Ólafur Arnarsson var sakaður um rasisma en hann sagði mikla afneitun fólgna í því að horfast ekki í augu við það að því geti fylgt ýmis vandamál þegar ólíkir menningarheimar mætast. ,,Þetta þekkist víða og þá sérstaklega þegar um er að ræða menningarheima landa þar sem staða kvenna er gjörólík stöðu íslenskra kvenna.“ Ólafur spurði hvort ekki mætti ræða það sem kom fram í frétt Morgunblaðsins, að mæður drengjanna mega ekki ræða við skólayfirvöld og að drengirnir beri ekki virðingu fyrir þeim konum sem kenna þeim við skólann. Hér að neðan er hægt að hlusta á rifrildið: