5.660 heimili fengu fjárhagsaðstoð
Samtals fengu 5.660 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga árið 2019 og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 646 (12,9%) frá árinu áður. Frá árinu 2013 til 2018 hafði heimilum með fjárhagsaðstoð fækkað á milli ára eftir að hafa áður fjölgað árlega frá árinu 2007. Breyting í fjölda heimila sem þiggja fjárhagsaðstoð hefur að mestu haldist í hendur við þróun atvinnuleysis eins og kemur fram í myndinni hér fyrir neðan sem sýnir fjölda viðtakenda fjárhagsaðstoðar og árlegt hlutfall atvinnuleysis samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar árin 2003 til 2019.
Frá árinu 2018 til 2019 hækkuðu útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 867 milljónir króna eða 26,4%, en á föstu verðlagi hækkuðu þau um 25,9%. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar voru 160.800 krónur og hækkuðu frá árinu á undan um 24.558 krónur eða 18,0%. Árið 2019 var fjárhagsaðstoð greidd að meðaltali í 4,6 mánuði en 4,5 mánuði árið 2018.
Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2019 voru heimili einstæðra barnlausra karla 43,6% og heimili einstæðra barnlausra kvenna 22,9% en heimili einstæðra kvenna með börn 21,1%. Heimili hjóna/sambúðarfólks voru 10,5%. Árið 2019 voru 34,6% viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og af þeim tæp 88% án bótaréttar, alls 1.606 viðtakendur.
Árið 2019 bjuggu 9.549 einstaklingar eða 2,6% þjóðarinnar á heimilum sem þáðu fjárhagsaðstoð. Þar af voru 3.238 börn (17 ára og yngri) eða 4,0% barna á þeim aldri. Árið 2018 bjuggu 8.206 einstaklingar, eða 2,3% þjóðarinnar, á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð. Þar af voru 2.710 börn eða 3,4% barna.
Fimmti hver 65 ára og eldri fær félagslega heimaþjónustu
Árið 2019 fengu 9.568 heimili félagslega heimaþjónustu. Tæplega fimm af hverjum sex heimilum sem þáður slík þjónustu voru heimili aldraðra eða 7.957 (83,2%) og hafði þeim fjölgað um 215 (2,8%) frá árinu 2018. Á þessum heimilum aldraðra bjuggu 10.158 einstaklingar sem jafngildir 19,5% landsmanna 65 ára og eldri. Þeir sem voru 80 ára og eldri á heimilum sem nutu félagslegrar heimaþjónustu voru 5.693 eða 46,2% fólks á þeim aldri.
Fjölgun barna í dagvist á einkaheimilum
Árið 2019 voru 1.335 börn í dagvist á einkaheimilum og hafði fjölgað um 44 (3,4%) frá árinu á undan. Alls voru 5,2% barna fimm ára og yngri í slíkri dagvistun árið 2019. Rúm 5% allra barna á fyrsta ári voru í dagvistun á einkaheimili og rúm 25% eins árs barna, en það eru börn sem ekki hafa náð leikskólaaldri.
Talnaefni