Aukið samstarf Íslands og Kanada um öryggis- og varnarmál á Norðurslóðum var til umfjöllunar á ráðstefnu (e. Canada-Iceland Seminar: Maritime Defence and Security in the North) sem haldin var nýverið í Ottawa, höfuðborg Kanada.
Ráðstefnan var haldin í samstarfi sendiráðs Íslands í Ottawa, Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, Mobilizing Insights in Defence and Security (MINDS), Háskólans í Manitoba, sendiráðs Kanada í Reykjavík, Stríðsminjasafns Kanada í Ottawa, North American and Arctic Defence and Security Network (NAADSN), Global Affairs Canada | Affaires mondiales Canada og Alþjóðastofnunnar Háskóla Íslands.
Ráðstefnuna sóttu íslenskir og kanadískir sérfræðingar, þar sem sameiginlegar áskoranir og tækifæri þjóðanna er lúta að öryggis- og varnarmálum á Norðurslóðum voru til umræðu. Í þremur pallborðsumræðum ráðstefnunnar var fjallað um nýjar öryggisáskoranir er varða varnir og öryggi á sjó , ólöglegar fiskveiðar og aukið eftirlit með þeim auk áhrifa loftslagsbreytinga á öryggi.
Frá Íslandi tóku þátt Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Brynhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Northwest Atlantic Fisheries Organization (NAFO), Hlynur Guðjónsson, sendiherra, sendiráði Íslands í Ottawa, Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunnar Háskóla Íslands, Dr. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og Þorlákur Einarsson, meistaranemi frá Háskóla Íslands og sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu.
Nánari samantekt um efni málþingsins má nálgast hér.
Ráðstefnan var sú þriðja í röðinni sem samstarfsaðilarnir stóðu fyrir um málaflokkinn, þ.e. til að auka samræðu og samstarf Íslands og Kanada um öryggis- og varnarmál. Fyrsta ráðstefnan var haldin á Íslandi í nóvember 2021. Árið eftir var aftur haldin ráðstefna hérlendis þar sem sérfræðingar skiptust á skoðunum m.a. um áhrif alþjóðastjórnmála á Norðurslóðir. Samantekt af þeirri ráðstefnu má nálgast hér.