3.8 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 2. febrúar 2023
Auglýsing

Breytingar á embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur tekið við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu um næstu mánaðamót. Flutningur Ólafs er á grundvelli ákvæðis 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ákvæðinu var breytt árið 2016, m.a. í því skyni að gefa skipuðum forstöðumönnum ríkisins færi á að flytja sig í annað starf og auka þannig hreyfanleika forstöðumanna, m.a. í tengslum við starfslok.
Flutningurinn gefur ráðuneytinu og lögreglunni færi á að nýta sérþekkingu hans og reynslu á sviði landamæravörslu næstu árin, sérstaklega þegar kemur að Schengen samstarfinu og þeirri margvíslegu samvinnu Schengen ríkjanna á sviði landamæragæslu sem hefur verið byggð upp innan Frontex landamærastofnunarinnar.
Þá hefur dómsmálaráðherra ákveðið að Grímur Hergeirsson, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi, verði tímabundið settur í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum, frá 1. september til 1. nóvember nk. Margrét Kristín Pálsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, mun gegna stöðu aðstoðarlögreglustjóra hjá embættinu á sama tímabili. Embættið verður auglýst laust til umsóknar við fyrstu hentugleika.
Grímur Hergeirsson lauk prófi frá lögregluskóla ríkisins 1998 og starfaði sem lögreglumaður og rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglustjóranum á Selfossi til ársins 2004. Lauk meistaraprófi í lögfræði frá HÍ 2009 og málflutningsréttindum fyrir héraðsdómi sama ár. Hann var starfandi lögmaður til ársins 2014 og frá þeim tíma löglærður fulltrúi hjá sýslumanninum á Selfossi og frá 2015 hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi. Grímur hefur verið yfirlögfræðingur ákærusviðs og staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi frá 1. apríl 2017 og var settur lögreglustjóri á Suðurlandi frá 1. janúar-15 mars 2020.
Margrét Kristín Pálsdóttir lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013. Hún hefur starfað sem lögfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu (áður innanríkisráðuneyti) frá árinu 2012 þar sem hún hefur að meginstefnu sinnt verkefnum tengdum málefnum lögreglu og landamæra. Árið 2019 starfaði Margrét tímabundið hjá ríkislögreglustjóra við að setja á fót nýja landamæradeild innan embættisins auk þess sem Margrét var settur aðstoðarríkislögreglustjóri frá 1. janúar til 15. mars 2020