Unnið er að uppsetningu kantljósa í Hvalfjarðargöngum frá klukkan tíu á kvöldin til hálf sjö á morgnana. Þó nokkur umferð er um göngin á næturna en allt of oft vill brenna við að ökumenn sýni ekki nægilega aðgát í kringum vinnusvæðin. Vegfarendur eru beðnir að sýna tillitsemi meðan á verkinu stendur eins og fram kemur í tilkynningu.
„Kantljós eru tákn nýrra tíma og er að finna í flestum nýjum jarðgöngum,“ segir Jóhann B. Skúlason yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði. Uppsetning kantljósanna var boðin út í vor, Orkuvirki bauð lægst og vinnur því verkið. „Þessa dagana er verktakinn að fræsa rauf í steypta stéttina meðfram akbrautinni en í hana er lagður rafstrengur fyrir ljósin,“ útskýrir Jóhann en ljósin eru sett niður með 25 metra millibili.
Jóhann segir LED ljósin hafa gefið góða raun í öðrum göngum og komi í stað vegstika í Hvalfjarðargöngunum. Þetta sparar bæði tíma og fyrirhöfn því þrífa þurfti vegstikur mánaðarlega með sérstökum vélum í göngunum. Ljósin bæta einnig öryggi og gagnast líka sem rýmingarlýsing ef reykur kemur í göngin.
Starfsmenn Orkuvirkis vinna að gerð kantlýsingarinnar á nóttunni en unnið er frá klukkan 22 á kvöldin til klukkan 6.30 á morgnana. Vegfarendur eru beðnir um að fara varlega í göngunum meðan á vinnunni stendur en áætluð verklok eru 15. október.