Benedikt Sveinsson, lögmaður og athafnamaður, er látinn 86 ára að aldri. Morgunblaðið greinir frá. Benedikt fæddist 31. júlí 1938 en eftirlifandi eiginkona hans er Guðríður Jónsdóttir. Synir þeirra eru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Sveinn tölvunarfræðingur og Jón sem er rafmagnsverkfræðingur.
Benedikt var umsvifamikill í viðskiptum auk þess sem hann var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ um tólf ára skeið, oddviti meirihlutans og formaður bæjarráðs í tíu ár.
Benedikt hafði mikil óbein áhrif á stjórnmál síðasta áratuginn. Þar bar hæst þegar ríkisstjórn Bjarna, sonar Benedikts, sprakk á haustdögum 2017, innan við ári eftir að hún var mynduð. Forysta Bjartrar framtíðar, sem skipaði þá stjórn ásamt Sjálfstæðisflokki og Viðreisn, kenndi trúnaðarbresti um. Það var eftir að kom í ljós að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði greint Bjarna, þáverandi forsætisráðherra, frá því að Benedikt faðir hans hefði skrifað meðmæli með beiðni manns um uppreist æru.
Í fyrrahaust sagði Bjarni af sér embætti fjármálaráðherra vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að hann hefði verið vanhæfur við söluna á hlutabréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka. Það var vegna þess að Benedikt faðir hans var meðal kaupenda.
Benedikt lauk embættisprófi í lögfræði árið 1964, lærði viðskiptafræði við Minnesotaháskóla í Bandaríkjunum og varð hæstaréttarlögmaður 1969. Hann stundaði lögmennsku og skipasölu um árabil og sat í stjórn fjölda fyrirtækja á borð við Sjóvá, Eimskip, Flugleiðir og Marel.
Benedikt stundaði knattspyrnu með yngri flokkum Vals og var stuðningsmaður Stjörnunnar í Garðabæ.