Barnaverndarkerfið er mölbrotið og ónýtt og börnin bera skaðann fyrir lífstíð
Það er löngu orðið ljóst að barnaverndarkerfið á Íslandi stendur ekki undir eigin nafni. Kerfi sem á að vernda börn hefur ítrekað sýnt að það getur jafnvel skaðað þau. Það sem á að vera fyrsta og síðasta öryggisnet þjóðarinnar, foreldra og barna hefur að mörgu leyti orðið að völundarhúsi, ógegnsæju, svifaseinu og ónýtu.
Opinberar stofnanir eru orðnar táknmynd kerfis sem bregst börnum
![]()
Leikskólinn Múlaborg, sem hefur lengi verið í brennidepli vegna alvarlegs agavanda og óásættanlegs verklags, er dæmi um það hvernig eftirlit og ábyrgð hafa brugðist.

Upp kom fjöldi frásagna foreldra sem lýstu ótta barna, agaverkferlum sem enginn skilur og starfsmannavanda sem virtist hvergi nást utan um. Kerfið brást m.a. í að bregðast ekki strax við, brást í að hlusta og brást í að verja börnin. Starfsmaðurinn var sakaður um að hafa misnotað 13 börn en aðeins ákærður í einu tilfelli. Leikskólinn var varaður við af móður löngu áður en málið kom upp en á hana var ekkert hlustað. Þá vekur athygli og mikla furðu að faðir barnsins var aldrei upplýstur um grun um að barnið hans væri líklega misnotað kynferðislega á leikskólanum. Hví var hann ekki upplýstur?
Hvar er barnamálaráðherra?
Ofangreindu er kerfinu sem leyfir slíkum vinnubrögðum að viðgangist árum saman, að kenna. Hvar er barnamálaráðherra? Hvað hefur hann gert og hvað ætlar hann sér að gera? Það heyrist aldrei hósti eða stuna frá honum varðandi ítrekuð klúður kerfisins, þó hann sé æðsti yfirmaður þessa ónýta barnaverndarkerfis.
Sama má segja um Stuðla þaðan sem berast reglulega hryllingssögur og fleiri meðferðarheimili sem hafa ítrekað sætt gagnrýni frá bæði umboðsmanni barna, foreldrum og fagaðilum. Rannsóknarskýrslur hafa bent á skort á menntuðu starfsfólki, óljósar meðferðarleiðir og jafnvel að börn séu vistuð á stöðum sem geta verið algjörlega óviðeigandi, eins og í fangaklefum á lögreglustöð eða eru einfaldlega ekki í neinni meðferð, heldur í geymslu.
Þetta er kerfi sem skaðar börn en tekur enga ábyrgð
Barnavernd rannsakar mál of lengi og grípur inn í, of seint, og mistekst einnig að byggja upp traust við foreldra og fagaðila. Endalausar tilvísanir, biðlistar, skipting ábyrgðar milli sveitarfélaga, óraunhæfir verkferlar og starfsmannavelta eru hluti af því sem veldur ófærum aðstæðum fyrir þau börn sem þurfa mest á hjálp að halda.
Þegar barn er tekið inn í kerfið fer það inn í veröld þar sem vinnubrögð eru misjöfn eftir landsvæðum, starfsfólk er yfirkeyrt og ákvarðanir teknar af óvissu og hraða. þetta er ein stór kerfisbilun.
Tálmunarmál: þegar barnavernd og sveitarfélög gera illt verra

Barnavernd eða mæðravernd á kostnað barns sem verður fyrir ofbeldi?
Þetta kerfi er ónýtt, sama hvar borið er niður. Í tálmunarmálum, þegar annað foreldrið, oftast móðir, útilokar hitt foreldrið, oftast föður, frá lífi barnsins. Hefur barnaverndarkerfið sýnt að það er jafnvel enn veikara þar en í öðrum málum. Þrátt fyrir að um sé að ræða alvarlegt brot á rétti barns til fjölskyldulífs og ofbeldi gegn því, og þrátt fyrir sífellt meiri fræðslu um foreldraútilokun, þá er kerfið algjörlega ófært um að bregðast við og er algjörlega úrræðalaust.
-
Tilkynningar frá foreldrum eru settar í skúffu.
-
Biðlistar í mats- og úrræðavinnu eru margra mánaða ferli.
-
Sýslumenn standa ráðalausir án lagasetninga til að framfylgja umgengni.
-
Barnavernd snýr sér oft undan með því að vísa í „foreldradeilur“ til að fyrra sig ábyrgð.
-
Börn missa foreldri (15 til 20.000 börn beitt ofbeldi með tálmun á Íslandi) vegna aðgerðaleysis kerfis sem á að verja þau.
Þetta er ekki bara stjórnkerfisvandi. þetta eru gróf mannréttindabrot og ofbeldi gagnvart börnum.
Hvernig getur lítið land leyft sér að bregðast svona?
Í litlu samfélagi reiknar fólk með ábyrgð, gegnsæi og fagmennsku. En þegar kemur að barnaverndarkerfinu eru þær væntingar brostnar.
Í stað kerfis sem vinnur með fjölskyldum og styður börn, hefur myndast kerfi sem er í vörn, lokað, illa fjármagnað og mannað og algjörlega ófært um að fylgja eigin lögum og leiðbeiningum.
Engin þjóð sem vill kalla sig siðmenntaða getur sætt sig við barnavernd sem:
-
ver hvorki börn sem verða fyrir skaða
-
né börn sem missa foreldri ólöglega
-
né börn sem eru sett í úrræði sem ekki virka
Þetta er kerfi sem þarf algjöra uppstokkun, ekki plástra.
Það eru börnin sem eiga rétt á nýju og öruggu kerfi – Ekki núverandi kerfi sem er ónýtt og reynir að afsaka sig
Upphrópanir um “meiri fjármuni“ duga ekki. Þetta er spurning um menningu, ábyrgð, fagmennsku, fullnægjandi menntun starfsfólks og siðferðislega skyldu gagnvart þeim sem eru varnarlausust.
Kerfið verður að opna sig. Endurmennta sig. Endurhugsa sig. Og þegar nauðsyn krefur, að byggja sig upp frá grunni í takt við nútímann og breytingar á fjölskylduaðstæðum t.d. vegna tíðra skilnaða.
- Það er kominn tími á barnavernd sem virkar, ekki barnavernd sem skaðar.
Tími á meðferðarheimili sem hjálpa, ekki geyma.
Tími á stjórnsýslu sem býr til lausnir, ekki afsakanir.
Tími á að horfast í augu við raunveruleikann:
Barnaverndarkerfið á Íslandi er ónýtt og barnanna vegna má það ekki viðgangast, hvorki í dag eða til framtíðar. Barnamálaráðherra og starfsmenn sem bregðast börnum verða að stíga til hliðar hið fyrsta ef þeir gerast sekir um áframhaldandi aðgerðarleysi í málefnum barna. Hvort sem börn eru beitt ofbeldi vegna tálmunar eða ofbeldis sem þau verða fyrir vegna sinnuleysis í barnaverndarkerfinu.
Dómsmálaráherra skoðar foreldraútilokun og breytingu á hegningarlögum

