Í fyrramálið og yfir mest alla helgina verður veður mjög krefjandi til ferðalaga, einkum á Norðurlandi og Vestur á fjörðum. Bálhvasst verður af SV, með hríð og blindu, einkum á fjallvegunum að því er kemur fram á síðu Vegagerðarinnar.
Veðurútlitið um vestan- og norðanvert landið er ekki gott um helgina og búast má við lokunum á vegum. Vegfarendur sem nauðsynlega þurfa að komast á milli staða eru beðnir um að breyta ferðaplönum. Yfirlit: Vetrarfærð er í flestum landshlutum í dag og varað er við asahláku. Nánari upplýsingar eru á færðarkorti Vegagerðarinnar sem má sjá hér
Hugleiðingar veðurfræðings
Stíf suðlæg átt í dag og hvassviðri eða stormur á norðanverðu landinu seint í kvöld. Súld eða rigning með köflum, einkum vestanlands, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýnandi, hiti 5 til 12 stig síðdegis. Suðvestan 15-23 m/s á morgun, úrkoman verður éljakenndari og það kólnar í veðri. Annað kvöld er útlit fyrir suðvestan storm eða rok með snjókomu eða rigningu, þó síst austanlands. Það væri því gott að huga að lausamunum til að koma í veg fyrir foktjón.
Á laugardag er spáð útstynningi og éljagangi, en slyddu eða rigningu á Suðausturlandi.
Veðuryfirlit
250 km V af Írlandi er víðáttumikil 1042 mb hæð sem þokast A, en skammt V af Hvarfi er 990 mb lægð sem fer hægt NA.
Samantekt gerð: 20.01.2022 07:40.
Veðurhorfur á landinu
Sunnan og suðvestan 10-18 m/s í dag, en hægari S-til. Súld eða rigning með köflum, einkum V-lands, en úrkomulítið á NA- og A-landi. Hlýnandi, hiti 4 til 12 stig síðdegis. Hvessir um landið N-vert í kvöld.
Suðvestan 15-23 með rigningu og síðar éljum á morgun og kólnar. Suðvestan stormur eða rok annað kvöld með rigningu eða snjókomu S- og V-lands.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Sunnan 8-13 m/s og súld eða dálítil rigning í dag, hiti 5 til 8 stig. Sunnan 13-18 og rigning í nótt en vestlægari með éljum og kólnar á morgun. Suðvestan hvassviðri eða stormur og slydda eða rigning annað kvöld.
Spá gerð: 20.01.2022 04:15. Gildir til: 21.01.2022 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Suðvestan 15-25 m/s, hvassast NV-lands. Él og hiti nálægt frostmarki, en úrkomulítið á A-landi. Rigning eða slydda með köflum SA-til með hita 0 til 5 stig. Dregur úr vindi seinnipartinn.
Á sunnudag:
Suðvestan og vestan 13-20, en hægari síðdegis. Él og frost 0 til 7 stig, en bjartviðri á A-landi.
Á mánudag:
Suðlæg átt 5-13 og stöku él, hiti breytist lítið. Hvessir S- og V-lands síðdegis með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hlýnandi veður.
Á þriðjudag:
Hvöss vestanátt og snjókoma eða slydda með köflum, en úrkomulítið á A-landi. Hiti um og yfir frostmarki. Dregur úr vindi og kólnar seinnipartinn.
Á miðvikudag:
Vestlæg eða breytileg átt og dálítil él víða um land. Frost 0 til 6 stig.