Í skýrslu starfshópsins er meðal annars fjallað um faraldsfræði sykursýki, afleiðingar sjúkdómsins, um skráningu upplýsinga um sykursýki í gagnagrunna og kosti og galla slíkrar skráningar og loks er fjallað um skimun fyrir sykursýki 2, skilyrði þess að slík skimun sé réttlætanleg og hvað hefur verið gert erlendis í þessum efnum. Rafn Benediktsson, formaður hópsins, kynnti ráðherra niðurstöðurmar á fundi sl. föstudag.
Fram kemur í skýrslunni að á heimsvísu sé áætlað að einstaklingum með sykursýki hafi fjölgað úr um það bil 333 milljónum árið 2005 í um 435 milljónir árið 2015, eða sem nemur rúmlega 30%. Í Evrópu er talið að um 9 – 10% fullorðinna séu með sykursýki. Hér á landi skortir rannsóknir á faraldsfræði sykursýki en vísað er til úrtaksrannsóknar sem byggð var á nokkrum hóprannsóknum Hjartaverndar á árunum 1967 – 2007 sem benti til þess að á tímabilinu hefði algengi sykursýki tvöfaldast hjá körlum en fjölgað um 50% hjá konum. Að mati starfshópsins eru engin augljós rök fyrir öðru en að sú fjölgun sykursýkistilfella sem spáð hefur verið erlendis muni einnig eiga sér stað hér á landi.
Í niðurstöðum starfshópsins segir meðal annars að sykursýki sé alvarleg vá sem gæti leikið Íslendinga grátt. Mikilvægt sé og tímabært að meta stöðuna og skipuleggja innviði til framtíðar. Skrá um sykursýki sé einn þátturinn í því, annar sé stefnumótun og sá þriðji, uppbygging innviða.
Starfshópurinn mælir með;
- að sett verði saman miðlæg skrá um sykursýki á Íslandi,
- að umrædd skrá verði vistuð hjá Embætti landlæknis,
- virkri ritstjórn klínískra leiðbeininga um sykursýki,
- að umrædd ritstjórn starfi innan Embættis landlæknis.
Samdóma álit starfshópsins er að hann:
- mælir ekki með almennri skimun fyrir sykursýki,
- mælir með áframhaldandi vinnu að heilsueflingu og forvörnum,
- mælir með að Embætti landlæknis leiði vinnu um heilsueflingu og forvarnir,
- mælir með eflingu heilsugæslunnar í víðum skilningi og að komið verði á fót heilsueflandi móttökum.
Formaður starfshópsins var Rafn Benediktsson, tilnefndur af Landspítala. Aðrir nefndarmenn voru Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir, tilnefnd af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Finnbogi Karlsson, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, tilnefnd af Embætti landlæknis, Fríða Bragadóttir, tilnefnd af Samtökum sykursjúkra, Ásgeir Böðvarsson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Hörður Björnsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands. Starfsmaður hópsins var Dagmar Huld Matthíasdóttir, velferðarráðuneytinu.
Umræða