Aðfaranótt sl. laugardags voru slökkvilið og lögregla kölluð að eftirvagni í miðbæ Ísafjarðar þar sem eldur var laus í gömlu byggingarefni sem var á vagninum.
Telja má mildi að veður var gott og að athugulir einstaklingar urðu varir við eldinn og gátu ýtt eftirvagninum frá húsum sem hann stóð við og komið þannig í veg fyrir hættu á meira tjóni. Vagninn er mikið skemmdur en efnið á honum var ekki þess eðlis að kviknað gæti í því af sjálfsdáðum.
Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um málið eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við lögreglu í gegnum 112 eða á vestfirdir@logreglan.is
Ellefu ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum í liðinni viku. Sá sm hraðast ók mældist á 132 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 90 km. Hans bíður sekt upp á 120.000 króna sekt og tveir punktar í ökuferilsskrá.
Einn ökumannanna var stöðvaður á 120 km hraða þar sem leyfður er 60 km hraði og annar á 66 km hraða þar sem 30 km hámarkshraði gildir. Bæði brotin hafa í för með sér ökuleyfissviptingu auk sektar.
Tilkynnt var um tvö umferðarslys á Vestfjörðum í vikunni, annað á Bíldudalsvegi og hitt við Bolungarvík. Meiðsl virðast hafa verið minniháttar í báðum tilvikum.
Skömmu fyrir hádegi á laugardag barst tilkynning um að einstaklingur sem hefði farið í sjósund við Dýrafjörð nokkru áður hefði ekki skilað sér í land aftur. Svo vildi til að á sama tíma var sjóbjörgunaræfing á Ísafjarðardjúpi, sem áður hefur verið rætt um hér á síðunni. Allar bjargir og stjórnstöðvar voru vegna þess fullmannaðar og var strax óskað eftir því að bátar björgunarsveita og varðskipið Þór héldu að Dýrafirði til leitar.
Skömmu síðar koma í ljós að viðkomandi hafði komið í land nokkru áður, heill á húfi. Æfingunni var því fram haldið.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var við Tungudal í Skutulsfirði, er tíðin með einmunum góð og gróður óvenju blómlegur miðað oft áður. Þá er veðurspá með þeim hætti að rétt er að eigendur ökutækja reyni að nýta það sem eftir er maímánaðar til að koma ökutækjum sínum af nagladekkjunum eigi þeir það á annað borð eftir.