Gæsluvarðhaldið yfir manninum var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur framlengt um eina viku, eða til 27. ágúst, á grundvelli rannsóknarhagsmuna
Maðurinn er grunaður um kynferðisbrot eins og Fréttatíminn greindi frá þann 15. ágúst s.l.
Leikskólastarfsmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar á kynferðisbroti gegn barni.
Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglu hafi borist tilkynning frá foreldrum barns á leikskóla í Reykjavík á þriðjudag og maðurinn hafi verið handtekinn samdægurs.
Hann var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í þágu rannsóknarhagsmuna fram á miðvikudag í næstu viku. Kristján Ingi segir rannsókn málsins á frumstigi. Lögregla geti ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.
Tilkynning lögreglu:
Karlmaður á þrítugsaldri var í fyrradag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 20. ágúst, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á kynferðisbroti í umdæminu.
Tilkynning um málið barst lögreglu á þriðjudag og var maðurinn handtekinn í kjölfarið. Rannsókn lögreglunnar er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.