Fréttatíminn fjallaði um málið fyrir ári síðan þegar að flestir aðrir fjölmiðlar kusu að minnast ekki á það en hægt er að lesa greinarnar hér að neðan

Afkomuviðvörun Arion: Að fenginni niðurstöðu Héraðsdóms í máli gegn Valitor verða áhrif óreglulegra liða á afkomu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 neikvæð um samtals 1,2 milljarða króna

Í dag féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Datacell ehf. og Sunshine Press Productions ehf. gegn Valitor hf., dótturfélagi Arion banka hf. Valitor var dæmt til að greiða stefnendum samtals 1,2 milljarða króna í skaðabætur. Í samstæðureikningi Arion banka er Valitor flokkað sem starfsemi til sölu. Dómurinn hefur neikvæð áhrif á afkomu samstæðu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 sem nema um 600 milljónum króna að teknu tilliti til skattaáhrifa. Þessi dómur, gjaldþrot WOW Air og sala bankans á eignarhlut í Farice hafa samanlagt neikvæð áhrif sem nema um 1,2 milljörðum króna á afkomu fyrsta ársfjórðungs 2019.

Dómurinn hefur ekki áhrif á yfirstandandi söluferli Valitor. Stjórn Valitor mun taka ákvörðun um hvort niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur verði áfrýjað.

Áhrif dómsins á afkomu bankans eru áætluð lægri en ella vegna samkomulags sem gert var þegar Arion banki keypti eignarhlut Landsbankans í Valitor Holding hf. árið 2014 en í því voru ákvæði um hlutdeild seljanda í því tjóni sem Valitor gæti orðið fyrir í tengslum við þetta mál.

Arion banki hefur upplýst um málaferlin og efnisatriði þeirra í árs- og árshlutareikningum sem og í útboðslýsingu í tengslum við frumútboð bankans sem fram fór á árinu 2018.

Um óreglulega liði er að ræða sem hafa ekki áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað Arion banka og eru fjárhagsleg markmið bankans til næstu 3-5 ára óbreytt.

Afkoma Arion banka fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 verður birt 8. maí 2019.

Þessar upplýsingar eru birtar í samræmi við upplýsingaskyldu Arion banka hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik.

https://www.fti.is/2018/07/24/atta-milljarda-krafa-gegn-valitor-vegna-wikileaks-enn-fyrir-domstolum/

https://www.fti.is/2018/02/21/farid-fram-a-kyrrsetningu-eigna-valitor-upp-a-6-5-milljarda/

https://www.fti.is/2018/11/19/arion-banki-semur-um-radgjof-vid-fyrirhugada-solu-hlutafjar-i-valitor/