FRIÐRIK KRISTJÁNSSON – Hvarf þann 31. mars 2013   
FRIÐRIK KRISTJÁNSSON – Hvarf í Paragvæ, í Suður-Ameríku,  31. mars 2013

Bjarki Hólmgeir Halldórsson tók efnið saman

Á því tímabili sem stuðst er við til umfjöllunar á síðunni Mannshvörf hafa einungis fimm mannshvörf hlotið meðferð sakamálarannsóknar sem heitið getur. Hvarf Friðriks Kristjánssonar sem að hvarf árið 2013, er eitt þeirra.

Friðrik Kristjánsson var fæddur í Reykjavík 21. janúar 1983. Þegar hann var þriggja ára gamall slitu foreldrar hans samvistum en héldu samt góðu sambandi. Þegar fram liðu stundir eignuðust foreldrar hans nýja maka sem strax tóku ástfóstri við Frikka eins og hann var gjarnan kallaður.

Hann var góður vinur vina sinna og almennt talinn ljúfur drengur. Systkini Friðriks minnast hans sem stóra bróður sem var einstakur og góður. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Friðrik Kristjánsson fæddist í Reykjavík 21. janúar 1983

Friðrik þótti afburða námsmaður, öflugur knattspyrnumaður og hampaði tvisvar bikarmeistaratitli með FH í unglingaflokki. Hann starfaði um tíma sem verðbréfamiðlari á Spáni en lenti þar í klóm eiturlyfjafíknar.

Þann 27. mars árið 2013 var Friðrik í símasambandi við vin sinn og tjáði honum þá að hann væri staddur í Hollandi og væri á leiðinni til Suður-Ameríku eða nánartiltekið til Paragvæ.

Ekki fannst þessum vini Friðiks vera neitt í samtali þeirra sem benti til þess að hann væri í vandræðum né að einhver hætta steðjaði að.

Síðast er vitað um lífsmark frá Friðriki 31. mars 2013. Þann dag hringdi hann þrisvar, á innan við tíu mínútum, í fyrrverandi kærustu sína en hún náði ekki að svara símanum. Hún segir að það eitt og sér að hann hafi hringt svona oft, á jafn skömmum tíma og raun ber vitni, sé óeðlilegt og lykti af örvæntingu. Hún var á þessum tíma við nám í Kína.

Ýmsar sögur hafa gengið um hvarf Friðriks Kristjánssonar. Talið er þó fullvíst að hvarf hans hafi borið af með saknæmum hætti. Ekkert hefur þó komið út úr rannsókninni sem upplýst getur hvarf hans eða gefið tilefni til handöku vegna þess. Lögreglan tekur að sjálfsögðu við ábendingum um málið sem er enn til rannsóknar.

Bjarki Hólmgeir Halldórsson tók efnið saman : Búir þú yfir upplýsingum eða vilt koma á framfæri ábendingu varðandi ofangreint, eða önnur mannshvörf er þér bent á að hafa samband með tölvupósti. Póstfangið er mannshvarf@gmail.com 

https://frettatiminn.is/2019/07/12/logregla-og-fjolskylda-valgeirs-eru-enn-viss-um-ad-hann-hafi-verid-myrtur/