Stefnt er að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar í næstu viku en nýverið náðist samkomulag við landeigendur í Þorskafirði. Verkið ber heitið Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Kinnastaðir-Þórustaðir. Í því felst nýbygging Vestfjarðavegar á um 2,7 km kafla við austanverðan Þorskafjörð.
Meðal verkefna er bygging 260 metra langrar steyptrar brúar yfir Þorskafjörð. Vegurinn er alfarið byggður í nýju vegstæði en tengist núverandi Vestfjarðavegi í báða enda.Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Nýi vegurinn frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum er alls 2,7 kílómetrar að lengd og styttir Vestfjarðaveg um rúma níu kílómetra. Áætlað er að 350 þúsund rúmmetrar af efni fari í fergingu á botni fjarðarins og fyllingu og 37 þúsund rúmmetrar í grjótvörn þar utan á, auk styrktarlags, burðarlags og klæðingar. Brúin verður steinsteypt, 260 metrar að lengd. Hún verður eftirspennt bitabrú í sex höfum. Tvö höfin eru 38 metrar að lengd en fjögur 46 metrar.
Brúin verður tíu metra breið og þar af er akbrautin níu metrar. Ljúka skal verkinu fyrir 30. júní 2024.