Brotið á rétti Magnúsar til réttlátrar málsmeðferðar

Íslenska ríkið hefur undirritað sátt við Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, þar sem viðurkennt er að ríkið hafi brotið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Þetta kom fram í máli Kristínar Edwald, verjanda hans, í málflutningi í Landsrétti í gær að sögn ríkisútvarpsins.
Sáttin byggir á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og er viðurkenning ríkisins á að brotið hafi verið á rétti Magnúsar til réttlátrar málsmeðferðar, í sáttinni kemur fram greiðsla ríkisins upp á tólf þúsund evrur, andvirði tæpra tveggja milljóna króna, og viðurkenning á að Magnús geti óskað eftir endurupptöku. Endurupptökunefnd hafnaði á sínum tíma beiðnum um endurupptöku, áður en málið fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.