Hvað er í gangi núna þegar tveggja metra reglan er búin að vera í gildi um langt skeið? Undarlegt er að kynsjúkdómar eru að aukast og greinilegt að tveggja metra reglan er ekki virt, því kynsjúkdómar smitast bara á einn veg. Með því að virða ekki þá reglu, geta þeir sem stunda skyndikynni, framhjáhöld eða eru að stofna til nýrra kynna, fengið meira út úr því en bara ánægjuna og Covid-19, miðað við tölur um að tíðni kynsjúkdóma eru að snarhækka. Tveggja metra reglan hefur verið í gildi frá 15. mars og tölurnar benda sterklega til að hún sé ekki virt.
„Þetta kom okkur óvart þar sem við vorum ekki með hugann við kynsjúkdóma síðustu vikur,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna fyrir helgi þegar hann var spurður um mikla aukningu sem mælst hefur í kynsjúkdómasmiti í janúar, febrúar og mars. Helmingi fleiri sárasóttartilfelli voru í mars en í fyrra og margfalt fleiri en árin á undan.
Eigum eftir að skoða þetta betur
„Kynsjúkdómar smitast bara á einn veg og þetta þýðir bara að einstaklingar eru ekki að passa sig í kynlífi eins og við höfum margsinnis bent á á undanförnu ári. Vissulega er það áhyggjuefni að það er aukning það sem af er ári á sárasótt og lekanda líka, klamydían og HIV-ið eru á svipuðu róli. En við eigum bara eftir að skoða þetta betur,“ sagði Þórólfur.