Lögreglustjórar og dómarar mótmæla frumvarpi forsætisráðherra sem felst í skerðingu launahækkana til æðstu embættismanna. Það sé grundvallaratriði að greina á milli lögreglustjóra, ákæruvalds og dómara annars vegar og þjóðkjörinna fulltrúa hins vegar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp um að laun æðstu embættismanna hækki um 66.000 krónur, eða 3,5% að meðaltali. „Að óbreyttu hefðu launin hins vegar hækkað um 8%, eða sem nemur hækkun launavísitölu ríkisstarfsmanna á síðasta ári,“ skrifaði Bjarni í færslu á Facebook á dögunum. Fjallað er ítarlega um málið á vef Morgunblaðsins, mbl.is þar sem kemur fram að launahæsta stéttin hjá ríkinu, mótmælir áformum um skertar launahækkanir
Lögin ná til forseta Íslands, ráðherra, þingmanna, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, ráðuneytisstjóra, seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. Dómarafélagið, Dómstólasýslan og Lögreglustjórafélag Íslands hafa sent inn umsögn um frumvarpið og gagnrýna þá harkalega.