Matvælastofnun barst tilkynning frá Arctic Smolt ehf. föstudaginn 24. maí 2024 um óhapp sem leiddi til stroks eldislax úr fiskeldisstöð þeirra í Norður-Botni, Tálknafirði, líkt og auglýst var á heimasíðu stofnunarinnar þann 30. maí 2024. Í kjölfar tilkynningarinnar tók Matvælastofnun málið til rannsóknar og óskaði eftir frekari upplýsingum. Þau svör gáfu tilefni til frekari athugana og var þá tekin ákvörðun um að fara í óboðað eftirlit á staðinn til að staðfesta grun stofnunarinnar.
Eftirlit fór fram dagana 3. og 4. júní 2024 og snérist rannsókn aðallega að því að yfirfara búnað stöðvarinnar vegna seinni varna í frárennsli til að koma í veg fyrir strok úr fiskieldisstöðinni. Jafnframt fór fram könnun á seltu vatns við frárennsli stöðvarinnar og að auki hvort farið hafi verið eftir verklagsreglum stöðvarinnar í aðdraganda og eftir að strokatburðurinn uppgötvaðist.
Matvælastofnun telur að ekki hafi verið til staðar nægjanlegur mannskapur til þess að sinna fyrsta viðbragði í kjölfar strokatburðar en samkvæmt upplýsingum voru tveir starfsmenn á svæðinu umrætt kvöld. Matvælastofnun telur að einungis hafi verið sinnt fyrstu viðbrögðum innanhús en ekki gætt að stroki við frárennsli.
Matvælastofnun telur ljóst að fiskeldisstöð sé ekki útbúin með seinni vörnum í frárennsli úr niðurföllum á gólfi og seiði hafi því átt greiða leið úr stöðinni. Ljóst er að töluvert ferskvatn er fyrir utan stöð og líkur á að seiðin hafi lifað af og synt upp í Botnsá enda liðu rúmar 14 klst. frá strokatburði þar til net voru lögð.
Matvælastofnun setti frávik og alvarleg frávik í eftirlitsskýrslu sem birt hefur verið á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar. Stofnunin mun hafa eftirlit með að unnið hafi verið úr frávikum og alvarlegum frávikum.
Matvælastofnun hefur upplýst Fiskistofu um málið.