Bjó á nokkrum stöðum hjá foreldrum sínum og síðan hjá fósturforeldrum í sárri fátækt
Sunnudaginn 27. október kl.14 heldur Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, fyrirlestur sem hann nefnir „Faðir minn Ágúst Þorvaldsson, fátæki drengurinn sem varð alþingismaður“. Fyrirlesturinn er á vegum Byggðasafns Árnesinga og verður í varðveisluhúsi safnsins að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka.
Fjallað verður um æsku Ágústs Þorvaldssonar á Eyrarbakka þar sem hann bjó á nokkrum stöðum hjá foreldrum sínum og síðan hjá fósturforeldrum í sárri fátækt, meðal annars í Hraunshverfi austan Eyrarbakka og voru Ágúst og fósturbróðir hans Hjálmtýr því gjarnan nefndir urðarkettirnir þegar þeir áttu leið í þorpið.
Umskipti urðu í lífi Ágústs þegar honum var tíu ára komið að Brúnastöðum í Hraungerðishreppi til fósturforeldra þeirra Ketils Arnoddssonar og Guðlaugar Sæfúsdóttur. Síðan lá leið hans upp á við og árið 1932 varð hann bóndi á Brúnastöðum 25 ára.
Hann var valinn til trúnaðarstarfa fyrir samfélagið og alþingismaður varð hann árið 1956. Hann og kona hans Ingveldur Ástgeirsdóttir eignuðust 16 börn. Guðni mun sýna kvikmynd sem Jón Ársæll Þórðarson gerði um ævi Ágústs.
Að fyrirlestri loknum verða umræður og kaffispjall. Fyrirlesturinn er dagskrárliður í Menningarmánuði Árborgar. Aðgangur er ókeypis.