Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja lætur af störfum, samkvæmt yfirlýsingu frá Samherja:
Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hf. lætur af störfum um næstu mánaðamót. Hann gerði stjórn félagsins grein fyrir þessari ákvörðun sinni fyrr í mánuðinum og í dag tilkynnti hann sínu nánasta samstarfsfólki um væntanleg starfslok.
Kristján segir að árin 43 hjá Samherja hafi verið fljót að líða. „Á tímamótum sem þessum leitar hugurinn eðlilega til upphafsins. Við vorum ungir, fullir bjartsýni og sannfærðir um að hægt væri að breyta Guðsteini í gott frystiskip, sem varð raunin með frystitogaranum Akureyrinni EA 10. Útgerð þess skips markaði upphaf rekstrar Samherja í núverandi mynd.
Öll þessi ár hefur framsýni og metnaður einkennt reksturinn en ekki síður traust og þétt samstarf. Vil ég þar nefna og þakka sérstaklega frænda mínum Þorsteini Má Baldvinssyni en okkar samstarf hefur alla tíð verið einstaklega gott. Hjartað í fyrirtækinu er starfsfólkið og okkar gæfa er að hafa fengið til liðs við okkur einvala lið á öllum sviðum, bæði til sjós og lands. Öll framangreind atriði hafa gefið góðan byr í seglin til uppbyggingar félagsins og velgengni.“ Segir í yfirlýsingunni.
Þorsteinn Már forstjóri hætti einnig fyrir stuttu síðan sem forstjóri Samherja og við tók sonur hans og var eignarhald fært yfir á soninn og dótturina eins og áður hefur verið greint frá.
Umræða

