Umræðan um tollamál er flókin og vandi að setja sig inn í hana. Háir tollar eru lagðir á margar landbúnaðarvörur, að sögn til að vernda innlenda framleiðslu. Ísland hefur síðan samið við aðrar þjóðir og ESB um að ákveðið magn af hinum ýmsu landbúnaðarvörum, svokallaðir tollkvóta, megi flytja á milli landa án tolla.
Í sinni einföldustu mynd eru tollar aukaskattur sem greiddir eru af íslenskum neytendum og þannig að verð innanlands hækkar og verðbólga eykst. Það er alger misskilningur að tollar skili sér til bænda eða framleiðenda. Þeir enda einfaldlega í ríkisvasanum. En vegna þess að verð hækkar, kaupa neytendur minna. Þannig tapa allir, eins og farið er yfir í þessari grein.
Þannig borga íslenskir neytendur brúsann fyrir erlenda viðskiptasamninga. Því skiptir máli fyrir neytendur að tollkvótum sé úthlutað með eins lágum tilkostnaði og hægt er og er því miður að nú eigi að stíga skref til baka og taka upp eldri og dýrari útboðsleið sem var lögð af fyrir ári síðan. Skömmin er bitin úr nálinni með því að leggja til að gamla og dýra aðferðin gildi í þrjú ár, í stað eins árs eins og lagt var til í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Einhverjir vilja meina að lækkun á útboðsverði tollkvóta skili sér ekki til neytenda. Vissulega er flókið að mæla áhrifin, en ný rannsókn ASÍ sýnir svart á hvítu að breytingarnar sem gerðar voru fyrir ári skiluðu sér í auknu framboði og raunverðlækkunum, á sama tíma og gengi krónunnar veiktist um 17%. (www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/verdlagsfrettir/breytingar-a-tollkvota-skilad-ser-i-auknu-frambodi-og-minni-verdhaekkunum-a-landbunadarvorum)
Það er áhugavert að fylgjast með því hvernig sumir reyna að beina umræðunni í gamalkunnar skotgrafir, þar sem neytendum og bændum er att saman eins og þeir væru andstæður en ekki hluti af órjúfanlegri keðju. Hið rétta er að bændur komast ekki af án neytenda og neytendur ekki án bænda. Einangrunartollhyggja gagnast hvorugum. Við höfum búið við slíkt kerfi í áratugi og það er ekki að sjá að bændur ríði feitum hesti frá því. Þess vegna leggjast Neytendasamtökin alfarið gegn frumvarpinu og hafa frekar lagt til beinan stuðning við bændur. Hann er bæði ódýrari fyrir neytendur, eykur ekki verðbólgu og skilar sér örugglega til bænda. Nú liggur reyndar fyrir að ríkið muni veita bændum aukinn beinan stuðning og bæta í tolla þannig að innfluttar landbúnaðarvörur hækka í verði.
Hér er umsögn Neytendasamtakanna um frumvarpið.
Í meðfylgjandi orðsendingu sem send var til allra þingmanna 1. desember síðastliðinn voru þingmenn hvattir til að leggja neytendum lið og taka ekki þátt í að þrýsta verðbólgunni upp. Það verður áhugavert að fylgjast með hvaða þingmenn verða við þeirri áskorun.
Kæri þingmaður,
Neytendasamtökin mótmæla harðlega áformum stjórnvalda sem birtast í frumvarpi sem kom fram í dag um úthlutun tollkvóta (https://www.althingi.is/altext/151/s/0468.html). Hverfa á frá rúmlega ársgömlu fyrirkomulagi svokallaðs jafnvægisútboðs og taka upp aflagt dýrara útboðskerfi. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er það til að mæta tekjutapi matvælaframleiðenda vegna minnkandi eftirspurnar í kórónaveirufaraldrinum.
Þannig er enn á ný fyrsta hugmyndin að seilast í vasa neytenda til að mæta skakkaföllum vegna faraldursins. Að þessu sinni mun matarkarfan hækka í verði og er þar ekki á bætandi. Það er ekki það sem við þurfum núna. Við þurfum aðra hugmynd. Í grein sem birtist i Morgunblaðinu 23. nóvember sl. (og sjá má hér: www.ns.is/2020/11/23/tollar-tap-og-traust/) benda formaður og framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna á leiðir til að styðja við bændur án þess að hækka þurfi matvælaverð.
Tollar og verndarhyggja eru hamlandi stuðningur sem til leiða til taps neytenda, og framleiðenda þegar litið er til lengri tíma. Þessi hamlandi stuðningur er hluti af gamalli og hverfandi arfleifð sem verður að láta af. Þess í stað þarf að leggja áherslu á styðjandi stuðning, stuðning við nýsköpun og beinan stuðning við bændur. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur hafa sýnt að þeim er heilt yfir treystandi til að framleiða holl og góð matvæli. Matvælaframleiðendur verða að treysta eigin framleiðslu. Láta verður af kröfum um tollmúra og treysta neytendum til að velja.
Neytendasamtökin hvetja þig til að leggja neytendum lið og hafna þessari fyrstu hugmynd um verðhækkun matarkörfunnar, sem jafnframt mun leiða til aukinnar verðbólgu. Það eru til betri leiðir.
Virðingarfyllst, Breki Karlsson