Matvælastofnun og Lyfjastofnun vara við neyslu á tianeptine og annarra efna sem seld eru á netinu undir heitinu Nootropics og hafa mörg hver lyfjavirkni. Nootropics eru efni sem sögð eru örva heilastarfsemi og eru algeng í netsölu erlendis frá. Tianeptine er lyf notað við þunglyndi.
Þau innihalda í sumum tilvikum lyfjavirk efni sem geta verið hættuleg heilsu ef þau eru notuð án samráðs við lækni. Talið er að einstaklingur hafi nýlega látist hérlendis vegna inntöku tianeptine. Efnið tianeptine sulphate fannst í fórum einstaklingsins og telja læknar að það kunni að hafa valdið dauða hans. Ekki er hægt að veita nánari upplýsingar um atvikið. Ekki er að fullu ljóst hvort efnið sem einstaklingurinn tók og innihélt tianeptine hafi verið flutt inn sem lyf eða fæðubótarefni. Eins er óljóst hvort viðkomandi hafi flutt inn efnið sjálfur og hve lengi hann hafi notað það. Tianeptine er lyf notað við þunglyndi. Tianeptine er ekki með markaðsleyfi á Íslandi og því engin lyf til sölu á Íslandi sem innihalda efnið. Það er hins vegar með markaðsleyfi sumstaðar í Evrópu, Asíu og Suður Ameríku.
Einföld leit á netinu leiðir í ljós að auðvelt er að nálgast tianeptine í gegnum erlendar vefverslanir. Þannig er hægt að kaupa efnið frá Evrópu, Bandaríkjunum og öðrum ríkjum. Yfirleitt er tianeptine ekki selt sem lyf heldur markaðssett sem fæðubótarefni. Efnið virðist einnig vera markaðssett án skilgreiningar á því hvort um lyf eða fæðubótarefni sé að ræða. Rétt er að benda á að ólíkar reglur er að finna í mismunandi ríkjum um hvort efni séu skilgreind sem fæðubótarefni eða lyf.
Ekki eru gerðar jafn ríkar kröfur til framleiðslu fæðubótarefna eins og gerist með lyf. Því skal ávallt gæta varúðar við kaup og notkun slíkra efna, einkum ef þau eru keypt erlendis eða í gegnum erlendar vefverslanir.
Matvælastofnun og Lyfjastofnun vara við notkun á vörum sem innihalda tianeptine, sérstaklega ef efnið er ekki notað í þeim tilgangi sem upphaflega var ætlað, þ.e. sem lyf við þunglyndi í skömmtum skv. læknisráði. Röng inntaka lyfja getur valdið aukaverkunum og í versta falli dauða. Því er mikilvægt að hafa ávallt samráð við lækni áður en lyfseðilsskyld lyf eru notuð og fylgja leiðbeiningum sem fylgja lausasölulyfjum.
Matvælastofnun sinnir innflutningseftirliti með fæðubótarefnum og hefur stöðvað innflutning fjölda efna sem markaðssett eru undir heitinu Nootropics og innihalda efnið tianeptine. Nootropics eru fjölbreyttur flokkur efna með mismunandi efnainnihald. Innflutningur þeirra sem fæðubótarefni er óheimill ef þau innihalda lyfjavirk efni.