2.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 27. janúar 2023
Auglýsing

4,6 milljarðar til ferðaþjónustunnar auk almennra aðgerða

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

Ávísanir til landsmanna vegna ferðalaga innanlands, kröftugt alþjóðlegt markaðsátak og afnám gistináttaskatts út næsta ár eru meðal þeirra aðgerða í þágu íslenskrar ferðaþjónustu vegna COVID-19 sem ríkisstjórnin kynnti í gær. 
Kapp er lagt á að Ísland verði með fyrstu löndum til að byggja aftur upp eftirspurn í ferðaþjónustu. Í því skyni er þegar hafinn undirbúningur að kröftugu alþjóðlegu markaðsátaki í samvinnu við Íslandsstofu.
Stjórnvöld, ferðaþjónustan og almenningur þurfa einnig að taka höndum saman um að auka ferðalög innanlands. Í þeim tilgangi hefur ríkisstjórnin ákveðið að gefa landsmönnum 1,5 milljarða króna til að verja til ferðalaga innanlands. Átakið verður útfært nánar í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar.
Þá verður gistináttaskatturinn afnuminn út næsta ár, til ársloka 2021.
Þessar þrjár aðgerðir fela í sér alls 4,6 milljarða innspýtingu til ferðaþjónustunnar.
Auk þess hefur ferðamálaráðherra þegar breytt reglugerð um tryggingafé fyrir ferðaþjónustuaðila, sem liðkar verulega fyrir greininni.
Þá hefur Isavia fellt niður notendagjöld á Keflavíkurflugvelli í viðleitni til að örva flugframboð.
Síðast en ekki síst munu almennar aðgerðir í þágu atvinnulífsins ekki síst nýtast ferðaþjónustunni. Þar er m.a. um að ræða: greiðslur frá ríkinu til að mæta tekjutapi starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli; ríkisábyrgð á hluta útlána til fyrirtækja í rekstrarvanda; greiðslur til starfsmanna í sóttkví; og frestun á greiðslu opinberra gjalda fram á næsta ár.
„Með þessum stórfelldu aðgerðum veitum við aukið súrefni til atvinnulífsins og mildum áhrifin á fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu. Samtímis búum við okkur undir viðsnúninginn og verðum tilbúin að sækja kröftuglega fram á erlendum mörkuðum þegar aðstæður leyfa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra.