Ágætu stjórnvöld, Almannavarnir og Vegagerð
Ástandið á veginum að Látrabjargi er algjörlega óásættanlegt og óboðlegt, reyndar stórhættulegt. Það er ekki bara að vegurinn sé í hræðilegu ástandi, heldur er það ábyrgðarleysi að halda honum opnum fyrir fólk sem vill t.d. sjá almyrkvann á næsta ári. Almyrkinn (heildarmyrkvi) við Látrabjarg verður þann 12. ágúst 2026 og má búast við mikilli umferð um veginn.

Í sumar sá ég sjálfur að vegurinn er ónýtur og mætti t.d. tveimur bílum með sprungin dekk og svo var brotin hásing á þeim þriðja og fólk í mikilli hættu á ferðalagi að þessum merkasta staði Vestfjarða og reyndar i veröldinni.
Þessi vegur er nú orðinn óakfær og hefur verið síðustu áratugi og engin þjónusta eða björgunarúrræði í boði ef eitthvað gerist á svæðinu. Það er óviðunandi að fólk skuli leggja líf sitt og limi í hættu til að fylgja draumnum um að sjá almyrkva yfir Látrabjargi eða bara til að skoða bjargið, þegar vegurinn er í svo slæmu ástandi að það er ótryggt að komast þangað.

Það er versta ábyrgðarleysi að halda þessum vegi opnum á meðan þeir sem ætla að horfa á almyrkva standa frammi fyrir hættunni að lenda í slysahættu. Þetta er ekki bara spurning um óviðráðanlegt veður eða náttúruöfl, heldur um vanrækslu og vanmátt stjórnmálamanna og Vegagerðar. Hvers vegna er ekki gripið til aðgerða? Hvers vegna er veginum ekki lokað til að koma í veg fyrir slys og hugsanlegt mannfall? Það er sorglegt að sjá hvernig ástandið er orðið, og það er engin ábyrgð fólgin í því að halda veginum opnum í svona stöðu.
Ég segi það hreint út: Ef ekki verður gripið í taumana núna, mun það enda með alvarlegum slysum, jafnvel dauðsföllum, á fólki sem er að safnast saman til að horfa á almyrkva eða bjargið. Þetta er ábyrgðarleysi sem verður að stöðva strax. Við þurfum að loka þessum vegi strax, tryggja öryggi fólks og vinna að endurbótum áður en alvarleg slys verða. Þetta er spurning um öryggi en ekki bara um að halda ónýtum vegi opnum vegna fjárhagslegra eða pólitískra hagsmuna.
Stjórnvöld, vaknið! Látrabjarg er ein fallegasta og dýrmætasta náttúruperla Íslands. Núverandi ástand er óviðunandi og verður að breytast strax áður en það kostar mannslíf. Tjón á bifreiðum er þegar löngu orðin staðreynd. Veginum að Látrabjargi verði lokað í varúðarskyni uns hann verður öruggur og að hann verði lokaður næsta sumar þegar almyrkvi verður ef hann verður ekki orðinn öruggur þá!