Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, var endurráðinn til fimm ára á dögunum. Stjórn Ríkisútvarpsins tók ákvörðunina með minnsta mögulega meirihluta, fimm á móti fjórum.
Ríkisútvarpið fjallaði um ráðninguna og þar segir að Ingvar Smári Birgisson, varaformaður stjórnar RÚV, hafi verið á þeirri skoðun, ásamt þremur öðrum stjórnarmönnum, að með réttu hefði átt að auglýsa stöðuna. Ingvar segir í færslu á Facebook að auglýsing stöðu útvarpsstjóra hefði samræmst þeim gagnsæju vinnubrögðum sem þurfi að einkenna störf Ríkisútvarpsins.
Þeir stjórnarmenn sem vildu láta auglýsa stöðuna eru, auk Ingvars Smára, Rósa Kristinsdóttir, fulltrúi í stjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, fulltrúi í stjórn fyrir Vinstri græna, og Diljá Ámundadóttir Zoëga, fulltrúi í stjórn fyrir Viðreisn. Þau lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Sú leið að auglýsa stöðu útvarpsstjóra samræmist best þeim gagnsæju vinnubrögðum sem þurfa að einkenna störf Ríkisútvarpsins. Með því að auglýsa stöðuna má auka traust og tiltrú almennings gagnvart stofnuninni til framtíðar.“