Verkföll boðuð í fjórum grunnskólum í janúar
Niðurstaða í atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls í Egilsstaðaskóla á Egilsstöðum, Engjaskóla í Reykjavík, Grundaskóla á Akranesi og Lindaskóla í Kópavogi liggur fyrir. Kennarar og stjórnendur þessara skóla hafa samþykkt að boða verkfall 6. janúar 2025. Verkfallið er tímabundið og því lýkur 31. janúar 2025, hafi kjarasamningar ekki náðst.
Félagsmenn í Félagi grunnskólakennara (FG) og Skólastjórafélagi Íslands (SÍ), sem starfa í fyrrnefndum skólum, greiddu atkvæði um verkfallsboðunina. Atkvæðagreiðsla stóð dagana 19. nóvember – 21. nóvember 2024.
Kjörsókn var á bilinu 96 til 100 prósent. Já sögðu 98 til 100 prósent þeirra sem greiddu atkvæði.
Aðgerðir í sautján skólum
Félagsmenn Kennarasambandsins í sautján skólum hafa nú samþykkt verkföll, sum eru hafin en önnur eru boðuð í næstu viku og í byrjun janúar.
Leikskólinn
- Verkföll hófust í fjórum leikskólum 29. október síðastliðinn. Þetta eru Leikskóli Seltjarnarness, Holt í Reykjanesbæ, Drafnarsteinn í Reykjavík og Ársalir á Sauðárkróki.
Verkföll þessi eru ótímabundin.
Grunnskólinn
- Verkföll hófust í þremur grunnskólum 29. október síðastliðinn. Þetta eru Áslandsskóli í Hafnarfirði, Laugalækjarskóli í Reykjavík og Lundarskóli á Akureyri.
Verkföllin eru tímabundin og lýkur á morgun, föstudaginn 22. nóvember. - Næstu verkföll í grunnskólum hefjast á mánudag, 25. nóvember. Þá fer félagsfólk KÍ í Garðaskóla í Garðabæ, Árbæjarskóla í Reykjavík, og Heiðarskóla í Reykjanesbæ í verkfall.
Verkföllin eru tímabundin, standa til 20. desember, hafi samningar ekki náðst. - Þá hafa nú verið boðuð verkföll í fjórum grunnskólum frá og með 6. janúar 2025. Hér eru undir Egilsstaðaskóli á Egilsstöðum, Grundaskóli á Akranesi, Engjaskóli í Reykjavík og Lindaskóli í Kópavogi.
Verkföllin eru tímabundin og munu standa til 31. janúar 2025, hafi samningar ekki náðst.
Framhaldsskólinn
- Félagsfólk KÍ í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið í verkfalli síðan 29. október síðastliðinn.
- Félagsfólk KÍ í Menntaskólanum í Reykjavík hefur verið í verkfalli síðan 18. nóvember síðastliðinn.
Verkföllin eru tímabundin og standa til 20. desember næstkomandi, hafi samningar ekki náðst.
Tónlistarskólinn
- Félagsfólk KÍ í Tónlistarskóla Ísafjarðar hefur verið í verkfalli síðan 29. október síðastliðinn.
Verkfallið er tímabundið og stendur til 20. desember, hafi samningar ekki náðst.
Hér er hægt að kynna sér stöðuna í kjaramálum og fyrirhugaðar aðgerðir betur.
Skora á samninganefndir að standa við gefin loforð
„Ómálefnalegur launamunur milli opinbera og almenna markaðarins hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og leitt til skorts á menntuðum kennurum á öllum skólastigum. Við þeirri stöðu þarf að bregðast með því að jafna laun milli markaða og fjárfesta þannig í kennurum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun samþykkt einróma á fjölmennum baráttufund í Hofi á Akureyri í gær. Fundurinn skorar jafnframt á samninganefndir sveitarfélaga og ríkis að standa við gefin loforð og tryggja að launa félagsmanna Kennarasambandsins standist samanburð við laun sérfræðinga á almennum markaði.
Fundurinn var sem fyrr segir vel sóttur og stemning rafmögnuð og baráttugleði. Ávörp fluttu Jónína Hauksdóttir, varaformaður KÍ, Jón Ágúst Eyjólfsson, kennari í Síðuseli, Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, kennari í Brekkuskóla, og Einar Brynjólfsson, kennari í VMA. Fundarstjóri var Bryndís Inda Stefánsdóttir.