Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sem starfar í atvinnuvegaráðuneytinu, lagði í dag til við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að gefinn yrði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tollum til að bregðast við skorti á innlendum lambahryggjum og hryggsneiðum. Tillaga nefndarinnar er að á tímabilinu 29. júlí til 30. ágúst megi flytja inn lambahryggi og sneiðar með 172 króna magntolli, í stað 30% verðtolls og 382 króna magntolls, sem er hinn almenni tollur á þessum vörum.
Félag atvinnurekenda hefur gert athugasemdir við tímabilið, sem fram kemur í tillögu nefndarinnar. Félagið bendir á að fjórar vikur séu afar skammur tími; það taki tíma fyrir innflytjendur að finna kjöt af réttum gæðum til innflutnings og koma því til landsins. Ekki sé hlaupið að því að finna lambakjöt sem hafi verið 30 daga í frysti, en afnám frystiskyldu á innfluttu kjöti kemur ekki til framkvæmda fyrr en í byrjun nóvember.
„Tillaga nefndarinnar kemur of seint,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Það hefur legið fyrir vikum saman að það stefndi í skort á lambahryggjum, en afurðastöðvar hafa sagst eiga nóg og ráðuneytið látið þar við sitja. Nú, þegar stutt er í að skortur bitni á neytendum, kemur loks þessi ófullnægjandi tillaga frá nefndinni. Líklegasta niðurstaðan er sú að á næstu vikum verði skortur á lambakjöti og loks þegar tekist hafi að flytja kjöt til landsins verði sláturtíð í þann veginn að hefjast.“
Afurðastöðvar bjuggu til skort sem hækkar verð
Ólafur segir þetta mál dæmi um öfugsnúið landbúnaðarkerfi, þar sem hagsmunir neytenda séu ekki í fyrirrúmi. „Innlendar afurðastöðvar hafa selt lambahryggi til útlanda í stórum stíl, á verði sem er miklu lægra en það sem innlendri verslun stendur til boða. Þannig er búinn til skortur, sem hefur orðið til þess að á undanförnum vikum hefur innlent kindakjöt hækkað í verði.
Skorturinn býr að sjálfsögðu til þörf á innflutningi kjöts – sem afurðastöðvarnar telja annars vafasaman – en stjórnvöld hafa neitað að lækka tolla á innfluttu kindakjöti þannig að það sé á viðráðanlegu verði og innlenda framleiðslan hafi samkeppni.
Þetta mál setur málflutning þessara hagsmunaaðila í landbúnaðinum um fæðuöryggi í afar sérstakt ljós. Þeir hafa beinlínis staðið í vegi fyrir því að hér sé nægilegt framboð á þessum eftirsóttu matvörum.“