Maðurinn virtist vera með skerta meðvitund
Kona sem í fyrrakvöld hringdi í neyðarlínuna vegna borgara í neyð sagði að sér hafi blöskrað hreinlega orðfæri lögreglumanns á fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Hún greindi frá þessari neikvæðri reynslu sinni í færslu á Facebooksíðu og rataði málið þaðan í fjölmiðla.
Málavextir voru þeir að konan var á gangi í miðborginni og sá manninn sitjandi á gangstéttarbrún og virtist hann vera með skerta meðvitund. Hún hringdi tafarlaust í Neyðarlínuna og var gefið samband við lögreglumann. Í færslunni segir hún að lögreglumaðurinn hafi, eftir að hún hafði lýst ástandi mannsins eins vel og samviskusamlega og hún gat. Var hún spurð hvort maðurinn liti út eins og skattgreiðandi?
Hún segist hafa orðið orðlaus og spyr sig nú hvað lögreglumaðurinn hafi átt við, hvort hann hafi verið að vísa til uppruna mannsins eða félagslegra aðstæðna. Spurningin hafi verið ótrúlega fordómafull og bendi til þess að viðbrögð lögreglu fari eftir því hver eigi í hlut hverju sinni.
Upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra sendir Fréttatímanum skýringu:
Hér að neðan er tilkynning frá embætti ríkislögreglustjóra vegna fjölmiðlaumfjöllunar er varðaði spurningu lögreglumannsins:
“Embætti ríkislögreglustjóra tók til skoðunar kvörtun sem birt var á samfélagsmiðlum 21. júlí og snýr að samskiptum starfsmanns fjarskiptamiðstöðvar lögreglu í máli sem þar kom inn til afgreiðslu. Eftir skoðun kom í ljós að samskipti starfsmannsins hefðu mátt vera betri og á því hefur verið tekið.
Tekið skal skýrt fram að umrætt orðalag, sem nefnt er í umræddri stöðuuppfærslu, endurspeglar ekki viðhorf viðkomandi starfsmanns né lögreglunnar í heild til skjólstæðinga hennar. Starfsmaðurinn segir sjálfur að um klaufalegt orðaval hafi verið að ræða þegar hann hafi verið að reyna að átta sig á stöðunni sem hafi alls ekki verið illa meint. Hann áttaði sig á mistökum sínum og gekkst að fullu við þeim. Einnig skal tekið fram að ekki er um að ræða viðtekið orðfæri innan lögreglunnar.
Rætt hefur verið við tilkynnanda í málinu og hann upplýstur um málsmeðferðina og skýringar starfsmannsins. Embætti Ríkislögreglustjóra ítrekar að allir sem leiti til lögreglu eigi rétt á sömu þjónustu og virðingu.”