Annar tveggja manna sem fluttir voru á slysadeild eftir sjóslys við Njarðvíkurhöfn í gærkvöld er látinn. Þetta staðfestir lögreglan á Suðurnesjum. Hinn látni var karlmaður á sjötugsaldri.
Slysið varð þegar sportbátur mannanna sökk skammt úti fyrir Njarðvíkurhöfn í gærkvöld. Neyðarkall barst skömmu eftir hálf átta og var mönnunum bjargað úr sjónum rúmlega átta, þeir voru þá fluttir á sjúkrahús en annar úrskurðaður látinn við komuna þangað. Líðan hins mannsins er eftir atvikum góð að sögn lögreglu.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að rannsóknarnefnd samgönguslysa hafi verið upplýst um slysið, tildrög þess liggi ekki fyrir og rannsókn málsins á frumstigi.
Umræða