Ákvörðun Atlantsolíu að lækka eldsneytisverð við sölustöðina við Baldursnes á Akureyri í gær til samræmis við verðstefnu sína í Kaplakrika í Hafnarfirði og Sprengisand í Reykjavík hefur heldur betur haft áhrif. Í gær lækkuðu tvær aðrar eldsneytisstöðvar á Akureyri sitt verð, Orkan á Mýrarvegi og ÓB við Hlíðarbraut til samræmis við Atlantsolíu á Baldursnesi.
Eftir að verðstríðið skall á er bensínlítrinn lægstur hjá Orkunni, 185,4 kr. En 185,5 kr. hjá Atlantsolíu og ÓB. Almennt bensínverð á öðrum sölustöðum á Akureyri er um 215 krónur. Lítraverð hjá N1 á Akureyri 214,9 krónur samkvæmt upplýsingum FÍB.
Verð á dísil hefur einnig lækkað og er 181,4 krónur hjá Orkunni á Mýrarvegi og 181,5 krónur hjá Atlantsolía við Baldursnes og ÓB við Hlíðarbraut.