Bílaumboðið BL hefur nú tekið upp þá nýbreytni að bjóða viðskiptavinum sem kjósa að fá sendan nýjan sótthreinsaðan reynsluakstursbíl heim að dyrum í stað þess að gera sér ferð í sýningarsali fyrirtækisins við Sævarhöfða, Hestháls eða Kauptún.
,,Ég held ég geti sagt það að upphaflega hugmyndin af þessu hafi verið vegna covid-19. Þetta vatt síðan upp á sig, við ákváðum að prófa, og þetta er kannski komið til að vera. Ef fólk vill fá bílinn heim þá mætum við þeim óskum. Þetta er nýlunda, fólk vill aukna þjónustu og við erum að koma til móts við þarfir og óskir neytenda,“ sagði Sigurjón Andrésson markaðsstjóri markaðssviðs hjá BL við FÍB.
Aðspurður hvernig óskum fólks úti á landi yrði mætt sagði Sigurjón að BL væri með þjónustuaðila víða á landsbyggðinni. ,,Við munum gera okkar allra besta í þeim efnum og taka hvert mál fyrir sig.“ Lánstíminn er eins og venja er varðandi reynsluakstur nýrra bíla og ákveðinn í samráði við viðkomandi söluráðgjafa hverju sinni. Auk þess sem BL býður upp á heimsendingu á reynsluakstursbílum býðst viðskiptavinum einnig að fá söluskoðun og verðmat á núverandi heimilisbíl meðan á reynsluakstrinum stendur.
Allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag heimsendingarþjónustunnar eru að finna á vefsíðu fyrirtækisins.