Áformað er að flytja starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til ríkisins. Meginmarkmiðið er að einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en hlutverk stofnunarinnar er að innheimta meðlög.
Tillögur þessa efnis eru kynntar í greinargerð verkefnisstjórnar, sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði, á grundvelli viljayfirlýsingar ríkis og sveitarfélaga frá janúar 2021, til að skoða fýsileika á tilfærslu verkefna við innheimtu meðlaga frá sveitarfélögum til ríkisins.
Megintillaga verkefnisstjórnarinnar er að færa ábyrgð á innheimtu meðlaga frá sveitarfélögunum til ríkisins. Verkefnastjórnin leggur til að horft verði til þess að innheimtumiðstöðin á Blönduósi, sem starfrækt er af Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, taki við verkefninu og að sú útfærsla verði unnin í samvinnu við dómsmálaráðuneytið.
Verkefnisstjórnin telur mikilvægt að tryggja áfram starfsemi stofnunarinnar á Ísafirði og á höfuðborgarsvæðinu og að staðinn verði vörður um starfsöryggi og réttindi starfsfólks við yfirfærslu verkefnisins til ríkisins.
Úttekt Ríkisendurskoðunar
Vegna áforma um yfirfærslu verkefnanna var Ríkisendurskoðun fengin til að gera úttekt á verkefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Það var gert í september 2021 með samningi við innviðaráðuneytið (þá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið).
Úttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri og starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga var birt fyrr í dag á vef embættisins. Ríkisendurskoðun leggur fram fjórar tillögur í úttekt sinni.
„Lagt er til að ábyrgð á innheimtu meðlaga verði endurskilgreind og að innheimtumönnum ríkissjóðs verði falin ábyrgð á verkefninu. Þá er lagt til að innheimtumönnum ríkissjóðs verði falið að meta þau verðmæti sem felast í kröfusafni stofnunarinnar, en í því sambandi telur embættið rétt að kröfusafnið í heild flytjist til ríkisins með samkomulagi við eigendur Innheimtustofnunar. Endanlegt uppgjör vegna kröfusafnsins fari þá fram að tilteknum tíma liðnum.
Enn fremur er lagt til að gerð verði sérstök greining á gagnagrunni núverandi innheimtukerfis, sem og þeim kerfum sem til staðar eru hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, eftir atvikum í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins. Loks er lagt til að viðtökuaðili verkefnanna, í samráði við ráðuneyti, marki stefnu um framkvæmd innheimtu meðlaga með skilgreindum mælikvörðum um árangur. Í því sambandi þarf m.a. að endurskoða lagaumhverfi meðlagsinnheimtu, skjalfesta verklagsreglur og koma á tilhlýðilegu gæðakerfi,“ segir á vef embættisins.
Áformin og helstu atriði úttektar Ríkisendurskoðunar voru kynnt á fundi með starfsfólki Innheimtustofnunar sveitarfélaga í morgun.
Í fyrstu verkefnisstjórn vegna undirbúnings yfirfærslunnar sátu fulltrúar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Önnur verkefnisstjórn var skipuð í mars á þessu ári til að halda áfram undirbúningi málsins og í henni sátu tveir fulltrúar innviðaráðuneytisins, einn fulltrúi Sambandsins og einn fulltrúi Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
- Úttekt Ríkisendurskoðunar
- Greinargerð verkefnisstjórnar (október 2022)