Nóttin var fjörug hjá lögreglunni og nóg um að vera í miðborginni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Allt fór þetta þó vel fram að mestu leyti. Þó ber að nefna þetta hér.
Rétt eftir miðnættið barst tilkynning um aðila sem ráðist hafði verið á. Hafði hann því næst verið neyddur til að millifæra fé. Málið er í rannsókn lögreglu.
Nokkur heimilisofbeldismál komu inn á borð lögreglu. Þá voru a.m.k 8 ökumenn teknir fyrir ölvun við akstur/undir áhrifum fíkniefna.
Þegar klukkan var að verða eitt í nótt var tilkynnt um aðila á mótorhjóli í Hafnarfirðinum. Þegar lögreglumenn gáfu honum merki um að stöðva akstur, hundsaði hann þau fyrirmæli og hófst þá eftirför. Ökumaður bifhjólsins fell af hjólinu skömmu síðar og gerði þá heiðarlega tilraun að hlaupa undan lögreglumönnum sem voru fljótir að hafa uppi á honum. Hann var handtekinn á staðnum. Í ljós kom að hann var ekki með ökuréttindi í lagi og reyndist vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá var aðilinn með fíkniefni á sér og bifhjólið sem hann ók á er ekki með tryggingar í lagi.