Vegna umfjöllunar mbl.is um samskipti lögreglu við húsráðanda í Hafnarfirði á föstudagskvöld vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að þau voru tilkomin vegna tilkynninga sem bárust um fjölmennt unglingasamkvæmi. Jafnframt var grunur um hugsanlegt brot á reglu um fjöldasamkomu, en við komu lögreglumanna á staðinn þótti sýnt að tilkynnendur hefðu eitthvað til síns máls.
Áðurnefndur húsráðandi var lítt samvinnuþýður og hreytti fúkyrðum í lögreglumenn á vettvangi, en meðan á því stóð sáust um 20 ungmenni, öll grímulaus, yfirgefa húsið. Orðum húsráðanda á mbl.is um gluggagægjur lögreglunnar er alfarið vísað á bug en lögreglumenn horfðu í gegnum glugga á framhlið hússins til þess að telja ungmennin sem verið var að koma út í gegnum dyr baka til.
Og um undrun hans á forgangsverkefnum skal upplýst að þau snúa m.a. að hugsanlegum brotum á sóttvarnareglum en sóttvarnalæknir hefur haft sérstakar áhyggjur af því að fólk frá mörgum heimilum safnist saman. Þess vegna ættu aðgerðir lögreglu að koma fáum óvart enda kann brot á sóttvarnareglum að valda ófyrirséðum afleiðingum. Lögreglan á höfuðborgasvæðinu telur að lögreglumenn hafi gætt meðalhófs í aðgerðum, en á meðal málsgagna eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi.