Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að grípa til sóttvarnaraðgerða sem takmarka grunn-, framhalds- og háskólastarf frá og með fimmtudeginum 25. mars til og með 31. mars. Ákvörðunin er tekin vegna sterkra vísbendinga um aukið Covid-19 samfélagssmit af völdum veiruafbrigðis, sem er líklegra en önnur til að valda veikindum meðal barna og ungmenna.
Staðnám í grunn,- framhalds- og háskólum verður óheimilt, en skólum í sjálfsvald sett hvort fjarnám komi í staðinn fram að páskafríi eða skólahald verði fellt niður. Tónlistarskólar verða lokaðir, en skólastarf í leikskólum er heimilt með skilyrðum.
Ákvörðunin er tekin á grundvelli minnisblaðs Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis frá 24. mars.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Það er forgangsatriði að verja heilsu barna og ungmenna og þess vegna eru viðbrögðin afdráttarlaus. Markmiðið er að stöðva strax nýja bylgju smita og við vitum hvaða aðferðir virka. Þess vegna tökum við í handbremsuna nú, köllum eftir góðri samvinnu og trúum því að afgerandi aðgerðir í skamman tíma skili bestum árangri. Við vitum að ákvörðunin hefur víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt, en það er mikið í húfi að ná tökum á stöðunni strax.“
Helstu breytingar og áhrif á skólastarf dagana 25. mars til 31. mars.
• Leikskólar mega starfa með 2 metra nálægðartakmörkunum milli starfsfólks. Ekki skulu fleiri en 10 fullorðnir einstaklingar vera í hverju rými. Viðvera foreldra innan leikskólabygginga takmörkuð.
• Grunnskólar verða lokaðar, svo og félagsmiðstöðvar, frístundaheimili og tónlistarskólar.
• Skólabyggingar framhaldsskóla verða lokaðar nemendum. Sinna má fjarkennslu, sé ítrustu sóttvarnaráðstöfunum fylgt, eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.
• Skólabyggingar háskóla verða lokaðar nemendum. Sinna má fjarkennslu, sé ítrustu sóttvarnaráðstöfunum fylgt, eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.
Ný reglugerð mun kveða á um hvernig skólastarfi verður háttað frá 6. apríl nk. og verður inntak hennar kynnt þegar nær dregur.