Í dag, á morgun og raunar alveg fram í næstu viku er útlit fyrir austlægan vind og óvenju litla tilbreytingu í vindátt. Það loft sem berst yfir landið er talsvert hlýrra en það sem að jafnaði gefst á þessum árstíma. Regnsvæði berast eitt af öðru yfir landið, en milli þeirra munu gefast ágætir þurrir kaflar. Nú vill svo til að útlit er fyrir þurran kafla einmitt á fimmtudaginn (á morgun), en þá er fyrir löngu búið að ákveða að halda uppá sumardaginn fyrsta.
Þá er útilit fyrir að verði bjart nokkuð víða og hitinn gæti náð í um eða yfir 15 stig í mörgum landshlutum. Það er þó ekki von á að hitinn nái sér á strik með austurströndinni þar sem blæs af hafi og ekki er loku fyrir það skotið að þoka láti á sér kræla á þeim slóðum. Seinnipart fimmtudags þykknar upp á landinu og fer að rigna um kvöldið, en áfram þurrt norðanlands.
Veðurhorfur á landinu
Austlæg átt 3-10 m/s í dag, en 10-15 syðst. Rigning eða súld, en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.
Austan 8-13 á morgun, en 13-18 með suðurströndinni. Víða bjartviðri, en þokubakkar austast á landinu. Hiti 10 til 17 stig, en svalara á Austfjörðum. Þykknar upp seinnipartinn og fer að rigna annað kvöld, en áfram þurrt norðanlands. Spá gerð: 24.04.2019 04:44. Gildir til: 25.04.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Austan og suðaustan 8-15 m/s og rigning með köflum, hvassast við SA-ströndina, en hægara og þurrt að kalla NV-til. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast NV-lands.
Á laugardag:
Austan 5-13 m/s og rigning S- og A-lands, annars dálítil væta með köflum. Fremur hlýtt að deginum, en kólnar síðan heldur.
Á sunnudag:
Suðaustlæg átt og rigning með köflum, en þurrt að mestu fyrir norðan. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á N-landi.
Á mánudag og þriðjudag:
Austlægar áttir og dálítil væta öðru hvoru, einkum A-lands, en áfram milt veður.
Spá gerð: 24.04.2019 08:29. Gildir til: 01.05.2019 12:00.