„Ástand þjóðveganna er mjög slæmt og því finna bílstjórarnir mínir vel fyrir. Undirlag fjölförnustu leiða er mjög veikt; í sumum tilvikum er aðeins mulningur ofan á moldinni og því gefur fljótt eftir þegar umferðin er mikil,“ segir Magnús E. Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar hf. á Sauðárkróki í viðtali við mbl.is.
Þörf á miklum úrbótum
„Stóra breytan í þessu öllu varðandi samgöngurnar er samt sú að vegir landsins hafa á síðastliðnum 15 árum, eða alveg frá efnahagshruninu, ekki fengið nauðsynlegt viðhald vegna ónægra fjárveitinga.
Á sama tíma hefur umferðin aukist mikið og þar koma til flutningar á afurðum lands og sjávar og ferðamennska, sem ég tel raunar að skili minnu í þjóðarbúskapinn en ef er látið.
Þarna er því einhver skekkja í áherslum stjórnvalda, þannig að mikilvægir innviðir landsins gefa eftir. Helstu leiðir út frá borginni, svo sem á Kjalarnesinu, Reykjanesbraut og vegurinn austur fyrir fjall, eru komnar í lag en víða annars staðar þarf að gera miklar úrbætur.“
Heimild: Mbl.is