Á fundi borgarráðs í dag, 23. júlí var nýr ólöglegur vinkill kynntur og samþykktur í ljósastýringarmálum Reykvíkinga. Hann var sá að óskað var eftir að borgarráð heimilaði umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út í samstarfi við Vegagerðina kaup á búnaði til endurnýjunar á umferðarljósum 2020.
Þetta er hreint með ólíkindum í ljósi forsögunnar. Staðan er þessi. Þann 11. október 2019 var útboð nr. 14356, rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa, auglýst. Þann 5. desember 2019, tók Reykjavíkurborg ákvörðun um að fella niður útboðið og hafna öllum tilboðum. Tvær kærur bárust vegna útboðsins, önnur dags. 27. desember 2019, sem lokið var með úrskurði þann 8. apríl sl., og hin dags. 27. nóvember 2019, sem enn er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Því er borið við að ljósabúnaðurinn sé orðinn gamall og úreltur sem er alveg hreint í hrópandi mótsögn við fyrra álit borgarstjóra og meirihlutans þegar tillaga Sjálfstæðisflokksins um snjallvæðingu umferðarljósa í Reykjavík var felld.
En mesta furðu vekur að farið er fram með nýtt útboð sama efnis og ekki hefur verið til lykta leitt hjá kærunefnd útboðsmála. Minnt er á að Reykjavíkurborg sjálf felldi niður útboðið og hafnaði öllum tilboðum. Þrátt fyrir samgöngusáttmála ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um forgang ljósastýringar fer borgin fram með þessum hætti og tekur ekkert tillit til þessarar sameiginlegu ákvörðunar og skilnings að bíða eftir þarfagreiningu á ljósastýringarmálum höfuðborgarsvæðinu.
Hér er bókun mín í málinu: „Hér er enn eitt drullumallið í útboðsmálum Reykjavíkur á dagskrá sem er hreint lögbrot. Hvers vegna er ekki beðið eftir þarfagreiningu á ljósastýringarmálum höfuðborgarsvæðisins sem stendur yfir? Þann 11. október 2019 var útboð, rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa, auglýst og 5. desember ákvað Reykjavíkurborg að fella niður útboðið og hafna öllum tilboðum. Tvær kærur bárust vegna útboðsins, annarri var lokið með úrskurði þann 8. apríl sl., en hin er enn til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála.
Í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu segir: „.Meiri hlutinn tekur undir það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar (434. og 435. mál) um mikilvægi þess að greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringum gangi hratt og félagið setji slíkar framkvæmdir í forgang því að slík umferðarstýring hefur veruleg áhrif á umferðarflæði með hlutfallslega litlum tilkostnaði. Bætt umferðarstýring með endurbættri umferðarljósastýringu er ein hagkvæmasta framkvæmdin sem ætlunin er að ráðast í og nauðsynlegt að forgangsraðað verði fyrir því verkefni strax og félagið tekur til starfa. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir í takt við markmið frumvarpsins.“ Þessi tillaga er klárt brot á samgöngusáttmálanum og lögum um útboðsmál.“
Vigdís Hauksdóttir
Höfundur er borgarfulltrúi Miðflokksins.