Stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, hefur kært Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara, vegna ummæla sem hann lét falla dagana 16. júlí og 19. júlí, um innflytjendur og flóttafólk frá Miðausturlöndum og um samtökin sjálf, sjálfboðaliða þeirra og skjólstæðinga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum, sem telja ummælin meðal annars fela í sér rógburð og smánun vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða, sem og ærumeiðingar samkvæmt almennum hegningarlögum.
Samtökin hafa sömuleiðis tilkynnt sömu ummæli vararíkissaksóknara með formlegum hætti til ríkissaksóknara með tilliti til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og almennra hegningarlaga.
Þar sem vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara, æðsta handhafa ákæruvalds hér á landi telja samtökin mikilvægt að fara lengra með málið og segja háttsemi hans varpa rýrð á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt.
„Framferði og tjáning Helga Magnúsar er honum og embætti ríkissaksóknara til vanvirðu og grefur undan trausti til embættisins,“ segir í tilkynningunni. Háttsemin varpi rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt.