Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á Landspítalanum í gær 23. nóvember, 83 ára að aldri.
Páll var alþingismaður Norðurlands vestra árin 1974 til 2003 fyrir Framsóknarflokkinn og félagsmálaráðherra árin 1995-2003. Hann var einnig formaður þingflokks Framsóknarflokksins 1980-1994.
Hann var fæddur á Höllustöðum í Blöndudal 17. mars 1937. Foreldrar hans voru Pétur Pétursson, bóndi á Höllustöðum í Blöndudal, og Hulda Pálsdóttir húsmóðir. Hann var elstur fjögurra systkina. Greint var frá andlátinu á Rúv.
Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1957. Hann var bóndi á Höllustöðum frá útskrift. Hann sinnti félagsmálum í Austur-Húnavatnssýslu áður en og eftir að hann var kjörinn á Alþingi 1974 fyrir Framsóknarflokkinn. Páll átti sæti í fjölmörgum ráðum og nefndum á sínum ferli, og alla sína tíð sýslaði hann við búskap á Höllustöðum ásamt fjölskyldu sinni.
Fyrri eiginkona Páls var Helga Ólafsdóttir húsmóðir. Hún lést árið 1988. Börn þeirra eru Kristín, Ólafur Pétur og Páll Gunnar.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, alþingismaður og umhverfisráðherra. Þau giftu sig í ágúst 1990.