Félagsmálaráðuneytið hvetur fólk til að skrá sig á lista bakvarðasveitar velferðarþjónustunnar sem félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga halda utan um. Velferðarþjónustan sinnir þjónustu við viðkvæma hópa og mikilvægt að hún falli ekki niður þrátt fyrir það ástand sem nú ríkir. Óskað er eftir fólki sem getur starfað í þjónustu við fatlað fólk, aldraða, heimilislausa og börn með sértækar stuðningsþarfir. Einnig getur komið til þess að óskað verði eftir fólki sem getur starfað við barnavernd og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Óskað er sérstaklega eftir fólki með reynslu og menntun í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynsla af störfum í velferðarþjónustu er kostur en ekki skilyrði.
Félagsmálaráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tímavinnu, hlutastarf eða fullt starf allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Laun taka mið af kjarasamningi/stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags á þeirri starfstöð sem um ræðir hverju sinni.
Athugið að einnig er starfandi sérstök bakvarðasveit fyrir heilbrigðisþjónustu, sjá hér.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag ráðninga
- Tímabil: Leitað er að fólki sem getur skuldbundið sig í allt að tvo mánuði.
- Laun: Laun taka mið af kjarasamningum viðeigandi stéttarfélags og þess sveitarfélags eða stofnunar sem um ræðir hverju sinni.
- Hver eru réttindi þeirra sem ráða sig til starfa: Orlofsréttindi verða greidd jafnóðum. Veikindaréttur starfsfólks sem ráðið er í tímavinnu eða skemur en tvo mánuði er í samræmi við ákvæði viðeigandi kjarasamninga.
- Hvar skráir fólk sig í bakvarðasveitina: Skráning í bakvarðasveit
- Hvernig verður staðið að ráðningum: Þau sveitarfélög sem óska eftir að ráða starfsfólk úr bakvarðarsveit velferðarþjónustunnar nálgast upplýsingar um liðsauka hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Stofnanir félagsmálaráðuneytisins geta nálgast sömu upplýsingar hjá ráðuneytinu. Stofnanir munu sjálfar hafa samband við bakverði og ráðningarsambandið verður á milli einstaklingsins og viðeigandi stofnunar eða sveitarfélags eftir því sem við á hverju sinni.
Hægt er að senda tölvupóst á vidbragd@frn.is ef þú þarfnast aðstoðar vegna Covid-19.