SELJUM EKKI ÍSLAND skilar 8.091 undirskriftum – krafist að Íslands sé eign þjóðarinnar
Undirskriftir samtakanna Seljum ekki Ísland þar sem krafist er að Íslands sé eign þjóðarinnar hafa verið sendar forseta Íslands og alþingismönnum og undirskriftirnar á blaði voru afhentar forsætisráðherra kl. 15 á, föstudag, í Stjórnarráðinu.
Samtals voru undirskriftirnar um 12 þúsund en eftir yfirferð fækkaði þeim í 8.091 undirskriftir. Undirskriftum var safnað á netinu í gegnum hópinn SELJUM EKKI ÍSLAND
„Ísland á að vera eign þjóðarinnar. Hún á að eiga í sameiningu fjöll, dali, vötn, ár og jökla. Þetta er landið okkar allra! – þjóðin öll eigi vatnið, orkuna og aðrar auðlindir landsins og allir landsmenn hafi óhindraðan aðgang að hreinu vatni og hreinu lofti.“ segir Jóna Imsland
Skorum á ríkisstjórnina og Alþingi að setja þessar kröfur okkar í lög:
- Að enginn geti átt/keypt land á Íslandi nema að eiga lögheimili hér á landi. Ef um bújarðir er að ræða skal viðkomandi eiga lögheimili á býlinu.
- Að takmarka fjölda og stærð eigna í eigu sömu aðila og skal eignarhald vera algjörlega gegnsætt, hver eigi land og hvar.
- Að ríkið og sveitarfélög eigi sameiginlegan forkaupsrétt að öllu landi, sem selt er eða fer í eyði, og verði kaupverð háð opinberu mati þar sem fyrrum nýting seljanda vegur þyngst. Ósnortið land í almanna eign verði ekki selt úr eigu þjóðarinnar.
- Að tryggður verði réttur almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi, með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.
- Að skýrt sé að þjóðin öll eigi vatnið, orkuna og aðrar auðlindir landsins og allir landsmenn hafi óhindraðan aðgang að hreinu vatni og hreinu lofti.
- Gera skal bændum kleift að selja jarðir til ríkis og sveitarfélaga og leigja landið síðan af sömu aðilum á sanngjörnu verði. Býlin yrðu þó eign ábúenda.
Eftirskrift: Það voru þó nokkrir sem gerðu athugasemd við lið 6. M.a. vegna erfðaréttar. Mér finnst rétt að nefna það.
SELJUM EKKI ÍSLAND sendi opið bréf til allra stjórnenda landsins!
Þið berið ábyrgð, sem þið hafið hlotið í kosningu og berið hana í umboði íbúa þessa lands.
Eitt af því sem ykkur ber að gera er að vernda land og þjóð. Í því felst m.a. að gæta þess að tapa ekki landinu og auðlindum þess.
Landið Ísland tilheyrir og á að tilheyra þjóðinni sem byggir það. Það er ekki einkaeign okkar sem nú lifum því komandi kynslóðir taka við og við eigum að skila því í betra ástandi en það var þegar við tókum við því.
Samt sem áður hafa tapast landsvæði og auðlindir úr landi til einkaaðila og félaga, bæði ljóst og eftir lúmskum krókaleiðum og það án þess að það veki miklar áhyggjur hjá ykkur ráðamönnum þjóðarinnar að því er best verður séð.
Hafið þið bein í nefinu eða lúffið þið fyrir peningamönnum og utanaðkomandi reglugerðum? Við hvað eruð þið hrædd? Við Íslendingar getum sett lög yfir okkar land og auðlindir þess og getum staðið uppi í hárinu á skrifræði ríkjasambanda ef við viljum og þorum.
Hvar eru þessi lög ? Þau hafið þið ekki sett. Þið getið sett þau og ykkur ber að setja þau.
Við sem skrifum undir þær kröfur sem eru hér með fylgjandi krefjumst þess að sett verði lög sem komi í veg fyrir sölu á landinu úr landi og til þeirra sem eru að sanka að sér landi í mis heiðarlegum tilgangi.
Það hefur enginn leyfi til að selja landið frá þjóðinni sem nú byggir það eða þjóðinni sem erfir það. Það eru landráð. Það getur ekki verið meiningin að gera framtíðar Íslendinga að landlausri þjóð, eða hvað?
Landið og auðlindir þess eiga ekki undir neinum kringumstæðum að vera eign auðjöfra og græðgisfélaga.
Okkur ber að hlúa að landinu fyrir okkur og komandi kynslóðir. Þetta auðlindaríka land á að geta brauðfætt og séð þegnum þess fyrir flestöllu sem það þarfnast. Það skiptir miklu máli að horfa til framtíðar en litlu að hugsa um fljótfenginn gróða.
Setjið lög sem vernda eignarrétt þjóðarinnar á landinu og auðlindum þess; lög sem á afdráttarlausan hátt banna erlent eignarhald á landinu og auðlindum þess svo og eignasöfnun auðkýfinga á landi og auðlindum.
Vinnum að því að gera landið betra fyrir alla íbúa þess, ekki bara fáa, frændur þeirra og vini.
Með vinsemd og virðingu, Jóna Imsland
Stofnandi og eini ábyrgðarmaður síðunnar og undirskriftasöfnunarinnar SELJUM EKKI ÍSLAND. – Það er enginn pólitískur flokkur á bak við mig.