Nú þegar sumarið er handan við hornið eru margir farnir að huga að ferðlögum enda sumarið tími þeirra fyrir flesta. Á tímum ferðatakmarkana í Covid–faraldrinum voru Íslendingar afskaplega duglegir að ferðast innanlands en núna þegar landamæri hafa opnast á ný hafa ferðalög utan landsteinanna aukist á ný. Maskína gerði könnun á málinu.
Stefnan tekin á Suðurland
Örlítið hefur dregið úr ferðaþorsta Íslendinga innanlands og sýna niðurstöðurnar 5 prósentustiga fækkun þeirra sem ætla sér að ferðast innan landsteinanna í sumar, sem þó eru 78% aðspurðra. Eins og síðastliðið ár er það Suðurland sem flestir taka stefnuna á eða um helmingur þátttakenda sem hyggjast á ferðalög innanlands. Á eftir Suðurlandi eru það Norðurland eystra og Vesturland sem eru vinsælustu áfangastaðirnir innanlands.
Evrópa heillar mest sem áður
Ríflega helmingur svarenda stefnir á ferðalög erlendis í sumar og hugðist lang stærstur hluti þeirra á ferðalög til Evrópu eða yfir 90%. Þetta rímar vel við niðurstöður frá síðasta ári þar sem Evrópa var langvinsælasti áfangastaður Íslendinga í sumarfríi.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.343, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 24. til 28. apríl 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.