Forsætisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu.
Samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020 annast Jafnréttisstofa stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar og ræður starfsfólk hennar.
Meðal verkefna Jafnréttisstofu er að hafa eftirlit með framkvæmd laga á sviði jafnréttismála, sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi, veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála, koma á framfæri ábendingum og tillögum til að ná fram auknu jafnrétti og fylgjast með þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu og á alþjóðavettvangi, m.a. með upplýsingaöflun og rannsóknum. Einnig að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samvinnu við hlutaðeigandi stjórnvöld og samtök. Þá sinnir stofnunin eftirfylgni með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Jafnréttisstofa er staðsett á Akureyri.
Menntunar- og hæfniskröfur:
- Háskólapróf sem nýtist í starfi
- Gerð er krafa um reynslu af stjórnun og mannauðsmálum
- Gott vald á íslensku og færni til að koma fram og tjá sig í ræðu og riti
- Góð kunnátta í ensku og kunnátta í einu Norðurlandamáli er kostur
- Leiðtogahæfileikar
- Samskiptafærni og hæfni til að miðla upplýsingum
- Þekking og reynsla á sviði jafnréttismála
- Framsýni, metnaður og vilji til að ná árangri
- Frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og skipulagshæfni
- Þekking og reynsla af stefnumótun, stjórnun og rekstri á sviði opinberrar stjórnsýslu sem nýtist á starfssviði stofnunarinnar.
Sérstök hæfnisnefnd skipuð þremur einstaklingum mun meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð til ráðherra. Nefndin starfar samkvæmt reglum nr. 1600/2023 um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um störf forstöðumanna, sbr. 39. gr. b. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
Upplýsingar um starfið veitir Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu í síma 545-9000. Ráðuneytið hvetur fólk af öllum kynjum til að sækja um embættið. Umsóknir ásamt kynningarbréfi, ferilskrá og upplýsingum um starfsheiti skulu berast forsætisráðuneytinu í tölvupósti á póstfangið for@for.is eigi síðar en 1. ágúst 2024. Miðað er við að skipa í embættið haustið 2024. Nöfn allra umsækjenda verða birt á vef ráðuneytisins að loknum umsóknarfresti.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið liggur fyrir.