Fiskibátur strandaði í Patreksfirði í dag, í fjörunni inn af bænum. Skipverja sakaði ekki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Þegar björgunarskipið Vörður II frá Patreksfirði mætti á strandstað var ljóst að lítið yrði að gert, þar sem báturinn var á þurru og útfall.
Tilkynning barst Verði um klukkan 14 í dag, rétt um átta tímum eftir að áhöfn skipsins hafði verið kölluð út vegna smábáts sem hafði fengið rekald í skrúfuna í mynni Patreksfjarðar. Athugað var með fiskibátinn að nýju á aðfalli um klukkan 17.
„Þegar Vörður og smærri bátur frá Björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði komu að bátnum var hann kominn á flot og lítið annað en að koma taug í hann. Báturinn var svo dreginn eitthvað skemmdur til hafnar á Patreksfirði,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.