,,Hvers vegna á ekki að bjarga börnunum á Stuðlum?“
Geir Örn Jakobsen lést í eldsvoðanum á meðferðarheimilinu Stuðlum aðfaranótt laugardags í síðustu viku. Hann var aðeins sautján ára.
Tveimur dögum áður en hann lést spurði hann í viðtali á Stöð 2 hvers vegna ætti ekki að bjarga börnunum á Stuðlum og fjallað er ítarlega um málið á Vísi.is.
Greint er frá andláti Geirs Arnar, Geira, í viðtali við Jón K. Jakobsen, föður hans, í Heimildinni. Haft er eftir Jóni að barátta hans við kerfið við að halda syni sínum á lífi sé nú orðin barátta við að halda minningu Geirs Arnar á lofti.
Jón segist hafa fengið símtal frá barnavernd snemma að morgni laugardags og honum hafi verið tjáð að alvarlegt atvik hefði orðið á Stuðlum.
„Ég spyr; af hverju ertu að hringja í mig? Geiri er ekki þar. Ég er pabbi hans og vissi ekki að hann væri á Stuðlum.“
Sagði betrun litla sem enga
Þeir feðgar stigu fram í viðtali á Stöð 2 tveimur dögum fyrir andlát Geirs Arnar í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kveiks um stöðuna á Stuðlum, sem sögð hefur verið hættuleg vegna álags.
Geir Örn hafði þá verið lagður sextán sinnum inn á Stuðla og sagði betrun þeirra sem fara þangað inn litla sem enga. Faðir hans kallaði úrræðið geymslu fyrir börn í vanda þar til þau verða átján ára.
Hér er hægt að sjá ítarlega umfjöllun um málið.