Samfylkingin mælist stærst, með 24,2% fylgi en Miðflokkurinn kemur næstur með 16,1%. Viðreisn er þriðji stærsti flokkurinn með 15,0%.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú aðeins fjórði stærsti flokkurinn í nýrri könnun Prósents fyrir Morgunblaðið, sem var kynnt í þættinum Spursmál í dag. Flokkurinn fengi aðeins 13,3% atkvæða.
Alls segjast 11,4% ætla að kjósa Flokk fólksins, 5,8% Pírata og 5,8% Framsóknarflokkinn. Vinstri græn myndu að öllum líkindum falla út af þingi, en aðeins 2,4% segjast myndu kjósa flokkinn. VG hefur tvívegis áður mælst með rúmlega tveggja prósenta fylgi í könnun Prósents, en nýlegar kannanir annarra könnunarfyrirtækja hafa mælt flokkinn í rúmum fjórum prósentum.
Þá er fylgi Sósíalista 4,3% og nýstofnaður Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar er með 1,1%.