Matarsýkingar vegna E. coli
Í ljósi frétta síðustu daga telur Matvælastofnun rétt að árétta nokkur atriði er varða meðhöndlun matvæla, sérstaklega með E. coli í huga.
Hvað er E. coli?
Til eru margar tegundir kólíbaktería. Þær finnast í þörmum manna og dýra. Sumar tegundir geta myndað eiturefni og þar með valdið alvarlegum sjúkdómum hjá fólki þá sérstaklega börnum, öldruðum og öðrum viðkvæmum einstaklingum. Þessar eiturmyndandi E. coli bakteríur nefnast STEC (Shiga Toxin-producing Escherichia Coli) og geta í sumum tilvikum valdið alvarlegum veikindum.
Matarsýkingar vegna E. coli
Bakterían getur komist í kjöt við slátrun, ef innihald þarma dýrsins berst á kjötið. Fyrirbyggjandi aðgerðir sem minnka líkur á að kjöt mengist eru því mikilvægar s.s. hreinir gripir og hreinlæti við slátrun. Einnig getur bakterían komist í grænmeti, ávexti og annað sem er ræktað í náinni snertingu við mold, lífrænan úrgang eða vatn sem er saurmengað.
Fólk getur smitast af E. coli, með menguðum matvælum (t.d.hakki og grænmeti) eða vatni, með beinni snertingu við dýr eða umhverfi menguðu af saur þeirra. Bakterían kemst þannig um munn og niður í meltingarveg.
Það er viðtekin venja að nauta-, lamba- og hrossasteikur séu bornar fram án þess að vera gegnumsteiktar. Á hráum kjötstykkjum eru bakteríur á ysta lagi kjötsins en ekki inni í vöðvanum. Þær drepast því þegar kjötið er steikt eða grillað við háan hita. Um hamborgara og aðra rétti úr hökkuðu kjöti gildir allt annað. Þegar kjöt er hakkað dreifast örverur um kjötið. Létt steiking drepur því ekki bakteríur sem eru til staðar í kjötinu. Til þess að drepa E. coli og aðrar sjúkdómsvaldandi örverur verður að steikja hamborgarana og aðra rétti úr hakki í gegn eða þannig að kjarnahitastig sé a.m.k. 75°C.
Hvað geta neytendur gert til að forðast smit?
- Fullsteikja ávalt hamborgara og annað hakkað kjöt
- Gæta að hreinlæti í eldhúsinu þegar hrátt og hakkað kjöt er meðhöndlað
- Forðast krossmengun með því að halda kjöti aðskildu frá öðrum matvælum, sérstaklega frá þeim sem ekki á að elda s.s. salati
- Skola allt grænmeti upp úr hreinu vatni
- Þvo skurðarbretti, áhöld, hnífa og nánasta umhverfi eftir meðhöndlun á hráu kjöti, til að koma í veg fyrir að bakteríur berist yfir í matvæli sem ekki á að hita
- Ekki þurrka upp blóðvökva með borðtusku sem er notuð á aðra fleti, nota frekar pappírsþurrkur
- Góður handþvottur með sápu og vatni eftir salernisferðir, áður en matvæli eru handleikin og eftir að hafa meðhöndlað hrátt kjöt er mikilvæg regla til að koma í veg fyrir smit
- Koma í veg fyrir að blóðvökvi leki af kjöti í ísskápnum
- Forðast neyslu á ógerilsneyddum mjólkurvörum