,,Ég fagna mótframboði Áslaugar og ég dáist af metnaði hennar og stórum hug og hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann.“ Segir Snorri Ásmundsson sem hefur boðið sig fram sem formann Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug er með fallegt bjart bros og það er líka töggur í henni sem er góður eiginleiki að hafa sem varaformaður. Ég er viss um að ég geti treyst henni fyrir mörgum verkefnum. Ég óska Áslaugu til hamingju með þetta skref sem hún er að taka og hlakka til að starfa með henni á vettvangi stjórnmálanna.
„Eins og staðan er núna er ég sjálfkjörinn. Það er enginn í framboði og auðvitað vona ég að það verði þannig áfram,“ sagði Snorri Ásmundsson fyrr í vikunni.
Það var stórfrétt í heimi stjórnmálanna þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti í byrjun janúar að hann hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem formaður Sjálfstæðisflokksins eftir 16 ár í því sæti.
Síðan hafa margir velt fyrir sér hver muni taka við formannssætinu. Sem stendur hefur aðeins einn gefið formlega kost á sér, listamaðurinn og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Snorri Ásmundsson. Hann ræddi við Síðdegisútvarpið á Rás 2 um framboðið og hér að neðan er fjallað um viðtlalið hjá ríkisútvarpinu:
Fékk hugskeyti frá Davíð Oddssyni sem styður framboðið
„Ég er búinn að fá mikið af stuðningspóstum og hringingum,“ segir Snorri. Sem stendur hefur Snorri einn gefið kost á sér í formannssætið og hann vonar að sú staða haldist óbreytt. Hann hefur áður gefið kost á sér á vettvangi stjórnmála: í sveitarstjórnarkosningum 2002 með framboðinu Vinstri hægri snú, til embættis forseta Íslands 2003 og til formanns Sjálfstæðisflokksins 2009. „Sennilega er ég tilbúinn núna. Ég held þetta sé rétta mómentið og þess vegna er engin mótstaða.“
„Svo er annað sem gerðist í dag. Ég fékk hugskeyti frá Davíð Oddssyni,“ segir Snorri. „Þar sem hann lýsti stuðningi við þetta framboð. Ég fann það bara.“
Ætlar að innleiða meiri spíritisma í flokkinn
Margir hafa bent á að það sé kominn tími til ný kynslóð taki við keflinu í Valhöll. „Ég er reyndar ári eldri en Bjarni,“ bendir Snorri þó á. „Ég er aðeins eldri en ég er ungur í anda. Ég er líka gömul sál, Bjarni var mjög ung sál.“ Þeir Bjarni eru því ólíkir. „Ég býst við að koma með spíritismann inn í Sjálfstæðisflokkinn aftur. Þeir voru áður andlegri en þeir eru í dag.“
Snorri er skráður í Sjálfstæðisflokkinn og þekkir sögu hans ágætlega. „Ég hef það frá afa mínum. Hann var sjálfstæðismaður og á stofnfundi Heimdallar. Hann var mikið að stúdera og fólk var fyrir 50, 60, 70 árum mun meira að spá í þessu,“ segir hann um andleg málefni. „Svo tók mammónið við.“
Margir sjálfstæðismenn feimnir við hann
„Ég hef boðið mig fram áður og þá hafði ég ekki leyfi til að sitja fundinn af því ég var ekki í fulltrúaráðinu,“ segir Snorri um aðalfundinn þar sem formaður er kosinn. Hann vonast til að fá að ávarpa fundinn að þessu sinni. Það eru margir í hópi sjálfstæðismanna sem Snorri lítur upp til. „Fyrst var það Geir Hallgrímsson. Ég man fyrst eftir honum sem barn, þá var hann aðalgæinn á Íslandi,“ segir hann.
„Það eru margir mjög magnaðir sjálfstæðismenn. Auðvitað Davíð Oddsson, ég leit mikið upp til hans,“ segir Snorri. „Ég hef hitt hann og reynt að eiga samtal við hann en hann var nú eitthvað feiminn við mig.“ Feimnin loði raunar við fleiri. „Eins og Hannes Hólmsteinn til dæmis. Ég bauð honum að vera gestur á jólatónleikunum mínum í fyrra, að koma í settið í Þjóðleikhúskjallaranum, og hann brást við með því að blokka mig,“ segir Snorri. „Hann er til dæmis mjög hræddur við mig.“
Er að fórna listamannalífinu til að svara kalli almennings
„Þeir eiga ekkert svar við mér, vita ekki hvernig þeir eiga samtal við mig af því ég er ekki að tala sama tungumál og þeir, þó við eigum margt sameiginlegt,“ segir Snorri um samflokksmenn sína. „Ég er náttúrlega í eðli mínu listamaður og bóhem og einstaklingshyggjumaður, þess vegna tengi ég við flokkinn.“
„Ég hefði sennilega, ef ég hefði fengið að velja sjálfur, haldið áfram sem listamaður en þegar kemur að því að þjónusta almenning hefur maður ekkert val. Maður verður að lúta því,“ segir Snorri. „Þetta er auðvitað fórn sem ég er að leggja í. Ég er að fórna vissum hlutum til að verða formaður í flokknum og ég finn það mjög sterkt að ég er að taka við flokknum.“
Getur ekki séð að neinn muni skáka honum
Snorri kemur til dyranna eins og hann er klæddur og heldur að það snerti við flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins. „Ég er voða mannlegur og leyfi mér að vera ófullkominn,“ segir hann. „Ég held það sé mitt sterkasta vopn í þessu. Ég held það sé eiginleiki sem flokkssystkinum mínum í Sjálfstæðisflokknum eigi eftir að líka við: Mennskan, húmanisminn og þetta andlega,“ segir Snorri. „Ég sé engan annan sem gæti ógnað mér.“